Stóra spurningin sem við stöndum frammi fyrir er hvernig samfélag við viljum að rísi upp úr kórónukreppunni. Alþjóðlegar rannsóknir á viðhorfum fólks til aðgerða sem gripið var til vegna veirunnar benda til þess að áhyggjur af vaxandi ójöfnuði hafi aukist, sérstaklega meðal ungu kynslóðarinnar. Þá virðist frjálslyndi, sam­ábyrgð og félagslegar áherslur ofar í hugum fólks en áður. Merki um aukinn ójöfnuð vegna COVID eru nú þegar sýnileg hérlendis. Ómarkviss dreifing fjármagns hefur ýtt undir slíka þróun. Þjóðarkakan minnkar – mörg þeirra sem halda vinnunni eru í sterkari stöðu en áður en aðstæður hinna hafa versnað. Stjórnvöld tala um ábyrga hagstjórn og dýrar aðgerðir en minna um hitt: hvernig almennar aðgerðir hafa dregið úr áhrifamætti peninganna og kynt undir ójöfnuði. Þetta er ekki þróun sem almenningur vill sjá.

Halli ríkissjóðs var 260 milljarðar í fyrra og svipuð afkoma er áætluð í ár. Rúmlega helmingur hallans í fyrra er vegna tekjusamdráttar en hitt er vegna aukinna útgjalda, þar af er rúmlega helmingur vegna atvinnuleysisbóta. Meirihluti hallans stafar þannig af svokölluðum sjálfvirkum sveiflujöfnurum, innbyggðum þáttum í tekju- og útgjaldaliðum hins opinbera. Aðeins um 25% af halla síðasta árs má því rekja til beinna ákvarðana stjórnvalda. Ofan á þá hátt í 200 milljarða sem sjálfkrafa leggjast á ríkissjóð flæðir nú önnur eins tala af nýju fjármagni í hagkerfinu. Fjármagn sem ríkisstjórnin telur sig enga ábyrgð bera á vegna þess að það má rekja til aðgerða á peningamálahliðinni sem Seðlabankinn heldur utan um. Þar var losað um hömlur í fjármálakerfinu sem leiddi af sér aukningu á nýjum peningum í umferð í gegnum miklar lánveitingar, einkum til fasteignakaupa.

Þó að Seðlabankinn sé sjálfstæður þá bregst hann við aðgerðum og aðgerðaleysi á ríkisfjármálahliðinni. Undanfarin ár hefur átt sér stað vitundarvakning víða um heim um ókosti þess að treysta um of á peningamálastefnuna til að styðja við hagkerfi í alvarlegri krísu. Hefur það alla jafna verið afleiðing af tregðu pólitískt kjörinna aðila til að beina fjármagni til þeirra sem raunverulega þurfa á slíku að halda. Ábyrgðinni er útvistað til embættismanna meðan kjörnir fulltrúar firra sig ábyrgð. Lærdómurinn af síðustu kreppu erlendis var að ómarkviss dreifing fjármagns þrýstir fyrst og fremst upp eignaverði. Fjármunirnir leituðu mun síður til þeirra sem í áfallinu lentu, lítið fór fyrir þeim í innviðafjárfestingu og afleiðingin var aukinn ójöfnuður.

Þá var um almennt áfall að ræða. Núverandi kreppa er mun sértækari, hún skekur aðeins afmarkaðan hóp. Allt frá því að kórónukreppan hófst var ljóst að tregða ríkisstjórnarinnar til að beita ríkisfjármálum með markvissum hætti hefði neikvæðar afleiðingar. Á þetta bentu hagfræðingar og stjórnarandstöðuþingmenn en ríkisstjórnin skellti skollaeyrum við. Það var rammpóli­tísk ákvörðun að bíða of lengi með sértækar aðgerðir og kalla þannig fram öflugri aðgerðir Seðlabankans en ella. Aðgerðir sem voru mjög almennar og þrýstu lánastofnunum í mikla útlánaaukningu til eina málaflokksins sem treystandi var, húsnæðis. Annað umfram fjármagn leitaði á verðbréfamarkað. Á meðan ráðamenn ræddu um hættur þess að hækka atvinnuleysisbætur í fordæmalausu atvinnuáfalli og streittust gegn því að beina fjármagni í auknum mæli til lítilla fyrirtækja til að koma í veg fyrir hrinu uppsagna flæddi fjármagn inn á fasteigna- og verðbréfamarkaðinn, kynti undir almennri eftirspurn og ýtti upp eignaverði.

Engin umræða hefur átt sér stað um þá hvata sem þessi óbeina aðgerð ríkisstjórnarinnar hefur haft; enginn stjórnmálamaður hefur þurft að svara fyrir þá miklu auðssöfnun sem hefur átt sér stað á undanförnum mánuðum í formi verulegrar verðhækkunar á verðbréfum og hækkunar húsnæðisverðs. Þau sem tæma sjóði sína til að mæta atvinnumissi – eða lenda í rekstrarvandræðum með lítil fyrirtæki hafa enga möguleika til að taka þátt í þessari uppsveiflu.

Samkvæmt opinberum tölum dróst opinber fjárfesting saman um 9,3% í fyrra – hagstjórnin er nú ekki ábyrgari en svo. Ábyrg hagstjórn, sem vinnur á móti áföllum en ekki með, snýst um að leita allra leiða til að örva fjárfestingu og vinnuframlag ekki aðeins kaupgetu. Þótt ríkisstjórnin tali mikið um stóraukna opinbera fjárfestingu hefur lítið af henni komið til framkvæmda. Ráðamenn leyfa sér svo að skrifa blaðagreinar þar sem þeir tala niður mikilvæga viðleitni Reykjavíkurborgar við að ýta undir fjárfestingu á tímum sem þessum. Viðbrögð stjórnarliða við áætlunum borgarinnar í fjármálum eru til marks um skilningsleysi á ábyrgri hagstjórn. Fyrst ríkisstjórnin virðist eiga erfitt með að koma verkefnum nógu hratt af stað ætti hún að setja í forgang að styðja við sveitarfélögin sem eru með fjölda samfélagslegra mikilvægra verkefna í startholunum. Í staðinn reynir hún að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína í sveitarstjórnum, sem kemur að lokum niður á öllum almenningi.

Á tímum þar sem svigrúm til athafna er takmarkað, í landi með brothættan gjaldmiðil og mikla verðbólgusögu, felst hin raunverulega ábyrga hagstjórn í því að beina peningunum þangað sem þeirra er þörf. Að verja velferð fólks, framleiðslugetu fyrirtækja og skapa ný fjölbreytt atvinnutækifæri. Aðeins þannig getum við tryggt öfluga viðspyrnu, varið jöfnuð og komist stolt út úr þessu ástandi öll saman.