Það er eitthvað dularfullt að gerast hjá dómstólum landsins. Skynsamlegar niðurstöður hrannast upp, jafnvel þótt ríkið hafi lagt mikið í sölurnar til að koma í veg fyrir réttláta niðurstöðu.

„Þessir úrskurðir gefa vonandi fyrirheit um að íslenskir dómstólar fari að láta af því viðhorfi að telja það hlutverk sitt að passa upp á kerfið,“ segir hæstaréttarlögmaður í samtali við Fréttablaðið á forsíðu blaðsins í dag um úrskurði sem kveðnir hafa verið upp um rétt tveggja manna til að fá mál sín endurupptekin fyrir dómi.

Þessi ummæli lögmannsins vekja upp tvær spurningar. Í fyrsta lagi er eðlilegt að fólk spyrji bæði sig og þá sem flestu ráða í landinu hvort það geti talist eðlilegt að stjórnendur landsins líti á það sem hlutverk sitt að berjast á móti réttlætinu.

Þetta hafa landsbúar meðal annars þurft að horfa upp á í eftirmálum Guðmundar- og Geirfinnsmála, en í þeim dugði yfirvöldum ekki að saklaust fólk hafði loksins verið sýknað af æðsta dómstól landsins. Áfram var leitast við að leggja stein í götu þess um eftirmálin.

Meðferð mála var ekki ósvipuð í Landsréttarmálinu, þar sem snemma glitti í að á ógæfuhliðina gæti sigið fyrir yfirvöldin sem þó þráuðust við og marseruðu alla leið til Strassborgar og þaðan aftur til yfirdeildar með tilheyrandi bið og skaða fyrir bæði dómþola og allt innlenda dómskerfið, sem enn hefur ekki jafnað sig á þeim töfum og kostnaði sem málið hefur skapað.

Í öðru lagi vekja ummæli lögmannsins þá spurningu hvort innlendir dómstólar hafi í raun og veru litið á það sem hlutverk sitt að verja ríkið fyrir hverskyns áföllum, hvort heldur er álitshnekki, fjártjóni eða öðrum skakkaföllum sem óhagfelldir dómar geta valdið.

Þetta eru verðugar spurningar fyrir íbúa þessa lands og kannski ekki síður fyrir yfirvöld landsins og þá sem gegna því ábyrgðarmikla hlutverki að fara með dómsvaldið.

Mikil kynslóðaskipti hafa orðið hjá dómstólum landsins á undanförnum árum, svo mikil raunar að meirihluti dómenda í landinu getur talið árafjölda dómarasetu sinnar á fingrum annarrar handar.

Fyrrverandi dómsmálaráðherra lagði svo mjög upp úr dómarareynslu dómaraefna að hún fór nálægt því að leggja heilt dómstig í rúst, nánast áður en til þess var formlega stofnað. Sé tekið mið af reynslu undanfarinna ára má leiða líkur að því að mat hennar á slíkum kostum í fari dómara hafi verið stórlega ofmetið.