Kynbundið ofbeldi og áreitni á vinnustað er málefni sem við eigum öll að láta okkur varða. Það er lágmarksréttur okkar allra að geta stundað vinnu okkar án þess að við séum beitt ofbeldi. Ofbeldi getur verið líkamlegt eða andlegt. Á síðasta þingi Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ) sem haldið var í maí síðastliðnum var ákveðið að RSÍ gerðist bakhjarl UN Women á Íslandi en á þinginu var haldin rakararáðstefna sem að mér skilst hafi verið sú fyrsta utan opinberrar stjórnsýslu.

Félagar í RSÍ eru rúmlega 6.000, þar af eru um 90% karlar og einungis 10% konur. Það má því með sanni segja að þetta sé mikið karlasamfélag. Þetta er sem betur fer að breytast. Það hefur verið markmið okkar um langt skeið að stuðla að fjölgun kvenna í okkar stétt. Störf í rafiðnaði eru almennt ekki líkamlega erfið en hugurinn er mikilvægt verkfæri til að leysa hin ýmsu verkefni. Því er ljóst að störfin henta kynjunum jafn vel. Það sem við viljum hins vegar gera og er drifkraftur þess að ákveðið var að gerast bakhjarl UN Women var að við viljum stuðla að opinni umræðu um stöðu kynjanna, jafnrétti í samfélaginu.

Þeir þingfulltrúar sem tóku þátt í rakararáðstefnunni töldu margir hverjir nauðsynlegt að ýta undir opna umræðu í tengslum við kynbundið ofbeldi en oft á tíðum var tregi eða hræðsla við að taka þátt í umræðunni. Þessu viljum við breyta því okkur mun ekki takast að jafna hlut kynjanna nema með því að allir taki þátt í verkefninu. Með opinni umræðu úti á vinnustöðum og með gagnkvæmri virðingu fyrir hvort öðru.

Frá því ákvörðun var tekin um að gerast bakhjarl UN Women hefur þó nokkuð verið gert í innra starfi okkar í málaflokknum. Stofnuð hefur verið jafnréttisnefnd sem hefur tekið til starfa og hefur svo sannarlega hafið störf af fullum krafti. Nefndin hefur velt við steinum og m.a. bent á ójafna aðkomu kynjanna í innri nefndum RSÍ. Unnið er að því að taka saman kynjabókhald í starfi RSÍ og voru jafnréttismál auk þess tiltölulega viðamikil í umræðum á árlegri trúnaðarmannaráðstefnu sem haldin var nýlega. Við styðjum jafnrétti á vinnumarkaði sem og í samfélaginu öllu. Við höfnum ofbeldi á vinnstöðum og við ætlum svo sannarlega að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til að stuðla að heilbrigðari vinnumarkaði, betra vinnusiðferði og stuðla að því að öllum standi til boða jöfn tækifæri á vinnumarkaði.

#SafeAtWork á að vera sjálfsagt, að vera örugg(ur) í vinnu. Trúnaðarmannaráðstefna RSÍ sendi frá sér áskorun þar sem meðal annars segir:

Öll eigum við rétt á því að starfsumhverfi okkar einkennist af gagnkvæmri virðingu í samskiptum og felur það m.a. í sér að njóta verndar gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru ofbeldi á vinnustað. Slík hegðun er bæði lögbrot og siðferðilega ámælisverð. Það á við hvort heldur sem um er að ræða hegðun atvinnurekanda, samstarfsmanna eða einstaklinga sem starfsmaður þarf að hafa samskipti við vegna starfs síns.

Jafnframt sagði:

RSÍ skorar á aðila vinnumarkaðarins að taka höndum saman um að tryggja öruggt starfsumhverfi, breyta vinnustaðamenningunni til hins betra, fordæma hverskonar ofbeldi og grípa til nauðsynlegra aðgerða til að koma í veg fyrir ofbeldi í samfélaginu. Við viljum tryggja að allir njóti sömu tækifæra því þá blómstrar samfélagið.

Höfundur er formaður Rafiðnaðarsambands Íslands.
Greinin er liður í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi.