Síðasta útspil Vatnajökulsþjóðgarðs var að úthluta kvóta á aðgengilegustu skriðjöklana á suðursvæði þjóðgarðsins. Er kvótakerfi sem aðgangsstýring það besta sem viðkomandi ráðamönnum hugkvæmdist? Allir vita hvernig kvótakerfi í sjávarútveginum hefur farið með aðganginn að fiskimiðunum, íslenskir jöklaleiðsögumenn eru komnir í eða eru á leiðinni í sömu stöðu og fólkið í þorpunum í kringum landið, þ.e.a.s. hafa ekki aðgang að sínum eigin auðæfum. Nú hafa forráðamenn Vatnajökulsþjóðgarðs ákveðið að hefta aðgang Íslendinga í eigin þjóðgarð. Ég sem leiðsögumaður (jökla- og fjallaleiðsögn) í nær 20 ár má ekki fara um jökla í eigin landi segi nei og hef ákveðið að beita borgaralegri óhlýðni og neita alfarið að láta bjóða mér þetta og hef ákveðið að láta á það reyna hvað verður gert þegar ég mæti með mína viðskiptavini í minn eigin þjóðgarð. Sem dæmi um þversögnina sem við erum að upplifa þá hef ég sem betur fer enn þá leyfi að fara á jökla á Grænlandi (hef verið starfandi þar) en hef núna eftir síðasta útspil framkvæmdastjóra Vatnajökuls­þjóðgarðs ekki leyfi til að fara á jökla í mínu eigin landi.

Einyrkjar í minni stöðu hafa ekki bolmagn til að slást við kerfið og þá sem hafa verið skipaðir eða sjálfskipaðir sem gæslumenn þjóðgarðsins, nýjasta dæmið er þegar undirritaður hafði samband við viðkomandi „ráðamenn“ bæði hjá þjóðgarðinum og umhverfisráðuneytinu en þar vísuðu þeir hver á annan eins og tölvupóstur til mín ber vitni um. Staðan í dag varðandi kvótastýringu á aðgengilegustu skriðjökla á suðursvæði þjóðgarðsins er þannig að aðeins ákveðin fyrirtæki hafa leyfi til að koma með sína erlendu gesti. Á heimasíðu þjóðgarðsins er farið fögrum orðum um að haft hafi verið samráð og samráðsferli við hagsmunaaðila, það var ekki haft samráð við mig eða eitthvert af þeim fyrirtækjum sem ég starfa fyrir, samt er eitt þeirra með elstu fyrirtækjum sem hafa stundað jöklagöngu hérlendis og hvorki var Félag leiðsögumanna eða SAF haft með í ráðum, að ég best veit.

Hafa sjálfskipaðir gæslumenn, þjóðgarðsverðir og framkvæmdastjórar þjóðgarðanna getað tekið sér vald til að hefta aðgengi landsmanna á eigin landi og afhenda það hugsanlega í náinni framtíð stórum erlendum ferðaþjónustukeðjum? Hvaða endemis þvæla og vitleysa er þetta og dreg ég í efa hæfi og verkferla við alræðisskipun starfsmanna ríkisins sem er ekki gott veganesti fyrir „væntanlegan“ miðhálendisþjóðgarð þar sem bændum og öðrum Íslendingum sem hafa verið gæslumenn svæðisins í hundruð ára (þúsund ár) verður samkvæmt þessu settar skorður hvað varðar aðgengi og nýtingu. Ef öðru er haldið fram núna af þeim sem eru að taka þetta svæði til eigin nota þá eru það hrein og klár ósannindi. Þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst þetta alltaf um hver fær hvað og hver fær að ráða yfir auðlindunum og ráðstafa þeim fyrir sína hagsmuni.

Mér líður eins og indjánum gegn innrás hvíta mannsins sem „vissu hvað væri best fyrir framtíðina“, núna er verið að skipta út gæslumönnum landsins og þeim sem hafa aðgang að því. Með sama áframhaldi verða bara erlendir gestir á öllu þessu landsvæði og búið að bola Íslendingum í burtu eins og var gert við frumbyggja Norður-Ameríku. Þetta kemur ekki til með að gerast alveg strax en hægt og bítandi með hálfósýnilegri hendi þannig að enginn taki eftir því. Þetta verður meðal annars gert þannig að gerðar verða kröfur um alls konar hæfni og flókið regluverk verður sett upp sem venjulegt fólk sem er ekki með sterkt bakland hefur ekki tök á að berjast við eða uppfylla.

Embættismenn gegn bændum eins og náttúruverndarsinnar gegn alþjóðlegum stórfyrirtækjum, þannig verður staðan í náinni framtíð eða er jafnvel þegar orðin að heimamenn eru útilokaðir frá svæðinu eins og í mínu tilfelli þar sem ég hef ekki leyfi lengur til að fara með gesti í þann hluta Vatnajökulsþjóðgarðs sem ég hef verið að nota hingað til. Á sama tíma og þetta er skrifað heldur umhverfisráðherra því fram að stofnun þjóðgarða styðji við heimamenn (ég er væntanlega ekki heimamaður búinn að búa hérna í yfir 60 ár). Þá er því m.a. líka haldið fram að þetta sé gert með hag ferðaþjónustunnar í huga. Þetta eru öfugmæli en með þessari ákvarðanatöku framkvæmdastjóra Vatnajökuls­þjóðgarðs þá missi ég vinnuna og verð væntanlega að snúa mér að fyrri starfsvettvangi, þ.e.a.s. að fara aftur að vinna fyrir stóriðjuna og líka kannski samviskunnar vegna enda er sá skaði sem hún veldur barnaleikur miðað við það sem þjóðgarðselítan ætlar að valda bæði á mannfólki og náttúru með sínu atferli.

Íslenskum skólakrökkum verður eins og staðan er í dag meinaður aðgangur vegna átroðnings erlendra ferðamanna, en ég hef verið að leiðsegja erlenda skólahópa í jöklagöngu og fengið fyrirspurn frá íslenskum skólahópum, en eins og staðan er í dag þá get ég ekki svarað þeim með vissu hvort að ég geti farið með þau í jöklagöngu á sína eigin jökla vegna þess að það er búið að ráðstafa þessu svæði fyrir erlenda gesti. Við Íslendingar höfum alltaf verið okkur sjálfum verstir, það hefur ekkert breyst frá því að við vorum undir Dönum. Nú eru erlend fyrirtæki að taka við keflinu af nýlenduherrunum, staðan gæti orðið þannig eftir nokkur ár að aðgangur að þessum hluta Vatnajökuls væri aðeins leyfileg erlendum aðilum og þyrftum við sem ætluðum að nýta þetta svæði að kaupa kvóta af þessum erlendu fyrirtækjum sem hugsanlega gætu verið orðnir eigendur að þeim fyrirtækjum sem hafa fengið úthlutaðan kvóta.

Þegar upp er staðið er hugsanlegt að þessi þjóðgarðsvæðingarskipting landsins sé mestu umbreytingar á landinu hvað varðar aðgengi, samsetningu á fólki, bæði sem tæki til valddreifingar, umhirðu og átroðnings, verða væntanlega þau mestu frá því að land byggðist, kannski ekki alveg allt, en alltof mikið af þessu verður mjög neikvætt bæði fyrir menn og landið sjálft, því miður. Stofnun þjóðgarðs er ekki samasemmerki um jákvæðni í umhverfislegu tilliti en í þessu tilliti er því haldið fram að þetta sé gert m.a. með fjölgun ferðamanna í huga. Gleymum því ekki, eins og áður hefur komi fram, að ferðalög eru í flestum tilfellum mjög neikvæð fyrir loftslag og umhverfið miðað við hvernig fólk og matvæli eru flutt á milli staða.