Hefðbundni kvænti karlmaðurinn hefur sterkar skoðanir á aðalatriðum. Evrópusambandið, COVID-litakerfið og stjórnarskrármálið er honum hjartfólgið. En minni málin líkt og hvað gera skal við tíma og peninga, því ræður konan. Hefðbundni, kvænti karlmaðurinn skiptir sér ekki af tilfinningamálum. Hann er duglegur til vinnu og vill öllum vel. Hann heldur mömmu sinni góðri, heldur fyrrverandi góðri og hann heldur núverandi góðri og vonar að konurnar fari ekki að rífast. Hefðbundni, kvænti karlmaðurinn kemur heim til konunnar sinnar, hún ávarpar hann með þunga í röddinni og segir: Við þurfum að tala saman. Þá líður honum líkt og Gunnar Nelson sé að bjóða honum inn í búrið. Síðasta úrræðið af öllu í heiminum er að tala saman, því konan man allt en hann man ekkert. Bjartur í Sumarhúsum ræddi líka alltaf stóru málin; hreppstjórann, kaupfélagsstjórann og orminn í fénu. Hefðbundni, kvænti karlmaðurinn ræðir nýjustu ákvarðanir Seðlabankans og allt hitt. Við þurfum að tala saman, segir konan. Hann yngist í framan, líður fimm ára. Hún man ávirðingar hans í smáatriðum frá því þau byrjuðu saman. Hann kann skammarræðuna utan að og gæti farið með hana sjálfur, en það er hennar hlutverk og orðin borast inn í sálarlífið svo hann engist og engist og vonar að hún fari að hætta. En hún hættir ekki fyrr en hann er í rúst. Nema hann reiðist á móti og taki slaginn. Árás eða uppgjöf. Hvort tveggja jafn slæmt.

Okkar vanvirku, þreyttu kynjahlutverk birtast iðulega í því að við refsum og höfnum hvert öðru. Þögn karla og reiði kvenna er mörg hundruð ára menningarástand. Læst hliðarlega. En menning er ekki náttúrulögmál. Henni má breyta.