Umliðinn mánudag var ég viðstaddur útför góðs vinar sem lést fyrir aldur fram. Er mannsöfnuðurinn stóð á fætur í kirkjunni og presturinn hóf að molda skalf jörð enn og aftur undir fótum okkar. Af jörðu ertu kominn, að jörðu skaltu verða, mælti eldri stéttarbróðir. Hann hefur elst, hugsaði ég. Ég hef líka elst. Jörðin nötraði. Ég leit í kring á góða samferðamenn. Öll höfðu elst.

Ein af mörgum skynvillum menningarinnar er hugmyndin um fasteignina. Þeir bentu á þetta grísku heimspekingarnir löngu fyrir Krist; allt hreyfist, var sagt. Hreyfingin, en ekki festan, er grunnur veruleikans. Og þegar þetta tekur að koma fram, mælti meistarinn frá Nasaret. – Þegar þetta tekur að koma fram þá réttið úr ykkur og lyftið upp höfðum ykkar því að lausn ykkar er í nánd.

Í þann mund er þjóðinni fór að létta með rísandi sól og árangri í glímu við veiruna hóf jörð að hristast undir fótum þorra landsmanna. Slíkt reynir á, en tvennt má læra: Allt hreyfist og mannshjörtun hræðast. Hver vill neita því? Ég eldist og ég kvíði. Það eru mannleg kjör. Jörðin minnir á sig. Af henni erum við, til hennar hverfum við. Kirkjugólfið dúaði og presturinn mælti orðin sem hjartað grunar en andinn skilur: Af jörðu skaltu aftur upp rísa.

Frekar en að halda okkur fast skulum við láta laust og vera samferða lífinu. Elskum þessa nötrandi jörð, vistkerfið sem fóstrar veiruna og hverja lífveru sem með okkur ferðast. Við erum stödd í óskiljanlega stórum, fáránlega gömlum og furðulega virkum heimi sem borinn er uppi af ómælanlegri ástríðu og ást á ljósi og lífi. Tilveran er vissulega kvíðavekjandi. Samt er þakklætið og undrunin stærri. Hver hefði viljað missa af þessu?