Frá árinu 1991 hefur alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundu ofbeldi staðið yfir ár hvert frá 25. nóvember, sem er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gegn konum, og 10. desember, sem er alþjóðlegur dagur mannréttinda. Tímasetning átaksins er táknræn á þann hátt að hún tengir kvenréttindi við mannréttindi, sem hafa verið skilgreind sem réttindi sem okkur eru nauðsynleg til að lifa sem manneskjur.

Á sama tíma og þetta mikilvæga átak fer af stað í ár birtist í Kjarnanum, þann 27. nóvember síðastliðinn, umfjöllun um átakanleg mál kvenna sem orðið hafa fyrir grófu andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi vegna kyns síns og uppruna. Konurnar eiga yfir höfði sér að vera sendar úr landi til Grikklands þar sem báðar hafa orðið fyrir ofbeldi á borð við kynlífsþrælkun og frelsissviptingu, enda í sérlega viðkvæmri stöðu þar í landi sem einstæðar konur á flótta.

Allar líkur eru á að frekara ofbeldi og ofsóknir bíði kvennanna ef þær verða sendar úr landi. Ekkert í þeirra aðstæðum í Grikklandi hefur breyst en hagir flóttafólks þar í landi er almennt afar bágbornir eins og fjölmörgum stofnunum og mannréttindasamtökum ber saman um. Daglegt líf flóttafólks í Grikklandi einkennist af útbreiddu atvinnuleysi með tilheyrandi heimilisleysi, sem eðli málsins samkvæmt gerir einstæðar flóttakonur enn útsettari fyrir hvers kyns ofbeldi og misnotkun. Lögregluofbeldi og jafnvel pyntingar á flóttafólki eru þar staðreynd, eins og fram kemur í ársskýrslu Amnesty International fyrir árið 2020 um aðstæður flóttafólks í Grikklandi. Þannig er ljóst er að gríska ríkið getur ekki verndað konurnar fyrir ofbeldi á borð við það sem þær hafa þegar orðið fyrir og munu að öllum líkindum verða fyrir ef af brottvísuninni verður.

Amnesty International bendir jafnframt á að efnahagsþrengingar undanfarinna ára gera að verkum að aðgengi flóttafólks að heilbrigðisþjónstu í Grikklandi er afar takmarkað, en þess ber að geta að konurnar sem hér um ræðir bíða báðar læknisþjónustu frá sérfræðingum hér á Íslandi, sem er þeim nauðsynleg eftir að hafa orðið fyrir kynfæralimlestingum í æsku.

Boðað hefur verið til samstöðufundar á Austurvelli á morgun, laugardaginn 4. desember kl. 14. Krafa fundarins er að konunum verði veitt skilyrðislaust dvalarleyfi á Íslandi, þær fái þá læknisþjónustu sem þær hafa þörf fyrir og stuðning við að koma sér fyrir í íslensku samfélagi. Eins og Claudia Wilson, lögmaður kvennanna, bendir á þá eru kvenréttindi eru mannréttindi, og mannréttindi fyrir alla -þar með talið flóttafólk.