Alveg á sama hátt og kóróna­veiruskrattinn barst á svipstundu til Íslands frá skíðasvæðunum í Ölpunum í febrúar 2020 eru nú taldar vera yfirgnæfandi líkur á því að kvef­pestarfjandi komi til landsins á næstu dögum og vikum þegar Íslendingar fara að skila sér frá sólarströndum Suður-Evrópu. Hitasvækjan þar í löndum hefur verið svo stæk og svaðaleg að heili stabbinn af sólarlandaförum hefur neyðst til að flýja strendur og útisvalir vegna bugunar og andnauðar. Og þá er ekkert um annað að ræða en að leita skjóls í loftræstum hótelherbergjum og snúa kælinguna í botn.

Forkæling

Æ fleiri dæmi heyrast af frónbúum sem hafa forkælst vegna þessa – og bara hreint alveg ógurlega í mörgum tilvikum, en liðið hafi lagst á beddann, öfugum megin veggjar en það ætlaði sér – og legið þar í kuldahrolli og innkulsi allt til enda ferðarinnar.

Eru sögur sagðar af því að varla hafi heyrst í hátalarakerfum flugstöðvanna vegna hósta, hryglna, korra og snörls þegar mannskapurinn hafi verið að tygja sig heim á leið eftir þessar líka ófarirnar. Má ætla að kvefpestar­faraldur sé yfirvofandi á Íslandi á næstunni af þessum sökum. n