Því hefur verið haldið fram, og rannsóknir lagðar fram því til sönnunar, að fólk sem eyði miklum tíma á samfélagsmiðlum sé yfirleitt vansælla en hinir sem kjósa að lifa lífi sínu án slíkra miðla. Þetta virðist ekki ólíkleg niðurstaða. Hið raunverulega líf er ekki að finna í netheimum. Það er annars staðar. Þessi skoðun, eða staðreynd, stangast reyndar á við fullyrðingar ástríðufullra Facebooknotenda sem halda því jafnvel fram að atburðir í lífi þeirra hafi ekki almennilega gerst fyrr en búið er að segja frá þeim á Facebook með viðeigandi myndbirtingu. Þar er líf einstaklinga til sýnis, venjulega sett í snotran búning. Þó er ekki hægt að segja að á Facebook ríki fegurðin ein. Iðulega fréttist um deilur, rifrildi og æsing milli fólks á þessum mjög svo vinsæla miðli.

Í netheimum og á samfélagsmiðlum eru margar vistarverur, ekki allar jafn fagrar og bjartar. Aldrei hefur verið auðveldara en nú að koma skoðunum sínum á framfæri og einstaklingar nota sér það óspart. Fjölmiðlar, sérstaklega netmiðlar fjölmiðla, sperra eyrun og leita sérstaklega eftir svívirðingum, nöldri og almennum leiðindum til að skella á síður sínar. Þegar einstaklingar eru komnir í hár saman á samfélagsmiðlum, þá eru netmiðlarnir fljótir að búa til fyrirsagnir: X segir Z hafa selt sig auðvaldinu! – A og B í hár saman! – L segir M vera alræmdan vitleysing!

Fréttir eins og þessar fá gríðarmikinn lestur og til þess er leikurinn einmitt gerður. Fréttirnar kalla einnig samstundis á vettvang hópinn „virkir í athugasemdum“. Þar er um að ræða einstaklinga sem eiga það flestir sameiginlegt að bólgna út og dafna í heift og neikvæðni. Þeir gera athugasemdir við fréttir á sinn afdráttarlausa hátt: Z er ræfill og rotta! – A ætti að drepa sig, það væri landhreinsun! – Allir vita að L er lúði, lygari og viðbjóður, sem hefur aldrei kunnað kurteisi.

Skilgreina má kurteisi á ýmsan hátt. Einn þeirra er á þessa leið: „Kurteisi er samskiptaform sem auðveldar tjáskipti milli tveggja eða fleiri einstaklinga.“ Greinilegt er að of margir hafna auðveldum tjáskiptum. Kannski þykja þau of fyrirhafnarmikil. Það getur nefnilega tekið smá tíma að vanda orðalag sitt. Þann tíma má vissulega spara með því að opinbera pirringinn og reiðina sem hefur hreiðrað um sig í sálarlífinu, í stað þess að reyna að hemja sig. Það er hins vegar stór spurning hvort það sé þessi virði. Mun heillavænlegra ætti að vera að halda í sjálfsvirðingu sína.

Skortur á kurteisi blasir við á netinu og honum er venjulega tekið af stöku umburðarlyndi, nánast eins og þar sé um að ræða óhjákvæmilegar aukaverkanir. Subbuskapurinn á netinu smitar síðan út frá sér, þannig að fólk lætur alls kyns hluti flakka, til dæmis í útvarpsþáttum. Netmiðlar grípa stóryrðin og skella á síður sínar, sem kemur sér illa fyrir þann sem í hlut á. Sá getur þó engum um kennt nema sjálfum sér og skorti sínum á kurteisi.

Ókurteisi kemur fólki einfaldlega í vanda.