„Þetta sprengir krúttskalann!“ er setning sem ég sé ansi oft þegar ég skruna í gegnum Facebook. Hún tengist oftast börnum af mismunandi stærðum og gerðum sem eru ýmist klædd einhvers konar búningum eða hafa nýlega áorkað einhverju mismerkilegu. Ég hef aldrei tengt neitt sérstaklega mikið við þessa setningu enda hefur minn krúttskali aldrei sprungið. Ég er kannski að nota einhvern annan kvarða, rétt eins og Bandaríkjamenn sem kunna ekki á Celsíus.

Skali sem er síspringandi er greinilega ekki nógu góður, alveg eins og röntgenmælirinn í Tjernobyl sem mældi bara upp í þrjá. Ef krúttskalinn þolir ekki þetta meinta álag þá er augljóst að við þurfum eitthvað að hliðra efri mörkum hans til svo að við sem samfélag getum betur metið hvað sé raunverulega krúttlegt og hvað ekki.

Það getur verið erfitt fyrir fólk sem á börn að taka þátt í þessari enduruppbyggingu kvarðans enda eru foreldrar hlutdrægir þar sem hverjum þykir sinn fugl fagur. Ég á hins vegar engan fugl og væri þess vegna fullfær um að endurhugsa skalann sem hluti af þar til gerðri nefnd.

Til að byrja með þurfum við að skilgreina hvað felst í orðinu krútt og setja upp nýjan skala með mælanlegar kríteríur á bak við hverja tölu. Er hor krúttlegt? En spangir? Hvort er krúttlegra á öskudeginum, Marvel-búningur úr Hagkaup eða heimagerður íkornabúningur? Er hrafnaspark krúttlegra en óaðfinnanleg tengi­skrift? Þetta eru spurningar sem við þurfum að svara til þess að meint krútt séu ekki að sprengja skalann okkar í tíma og ótíma.