Plast­hanska­klæddur maður með grímu stóð við kassa í Bónus og tróð gos­drykkjum, frosnum pítsum, sæl­gæti og ó­hollustu af ýmsum toga ofan í poka. Hann sprittaði sig reglu­lega á milli og horfði flótta­legur í kringum sig.

Mig dauð­langaði að benda honum á að draslið sem hann var að troða ofan í pokann væri lík­legra til þess að stúta honum fyrir aldur fram frekar en smit­sjúk­dómurinn sem hann var að forðast með hanska- og spritt­gjörningnum.

En nei, kona skiptir sér ekki af.

Eða er það?

Nei, það gerir hún ekki.

Kannski var hann að fara að halda partí og ætlaði að dreifa krans­æða­þokunni á vina­hópinn. Eða kannski var hann að versla fyrir aldraða frænku sína sem elskar kók, krítar og sterkt hlaup.

Hver elskar krítar? Það er mesta drasl nammi í heimi.

Klink­upp­fylling.

Ég horfði betur á manninn sem var að ganga út úr versluninni. Herðar hans voru spenntar og streitu­ský fylgdu honum út um renni­hurðina.

Hvað ef þetta snerist ekkert um hann?

Kannski á hann lang­veikt barn sem er með laskað ó­næmis­kerfi og myndi þola illa að veikjast. Eða kannski er hann sjálfur með ein­hvern sjúk­dóm. Eða býr með há­öldruðum föður sínum sem er með krabba­mein.

Eða er líf­hræddur og fer tvisvar í viku í kvíða­hóp.

Eða kannski veit ég bara ekkert um hann eða hans líðan og ætti því ekki að hafa skoðanir á hvernig hann verslar, eða hvað?

Ætli hann hafi prófað sellerísafa? Sko, til að minnka sykur­löngunina.