Reglulega verðum við vitni að alvarlegum krísum hjá fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum. Til er fín greining William Benoit á fimm mismunandi tegundum viðbragða við krísum, sem er ágætt að pæla aðeins í.

Afneitun. Hér er öllu neitað og ásökunum vísað á bug.

Forðun. Gott dæmi er ögrun, það sem olli krísunni var viðbragð við einhverskonar ögrun (ég var sleginn fyrst). Annað dæmi er vanþekking, viðkomandi vissi ekki betur. Þriðja viðbragðið eru ytri aðstæður. Ég var þreyttur og þess vegna varð ég dauðadrukkinn. Fjórða viðbragðið snýr að því að ætlun viðkomandi hafi verið góð og því eigi að horfa til þess frekar en afleiðingum sem ollu krísunni.

Dregið úr. Hér er oft reynt að beina sjónum frá vandanum og í aðra átt. T.d þegar dregnir eru fram jákvæðir þættir í fari þess sem situr undir ásökunum í stað þess að svara fyrir krísuna. Annað dæmi er þegar dregið er úr alvarleika þess sem olli krísunni og það smættað með því að setja það í samhengi við eitthvað miklu stærra og verra. Þekktasta dæmið í þessum flokki er svo þegar ráðist er á ásakandann og reynt að gera hann ótrúverðugan. Síðasta viðbragðið er svo þegar er reynt að bæta fyrir brot t.d með peningum og um leið draga úr neikvæðum áhrifum atburðarins.

Breytum rétt. Hér er boðað að það sem fór úrskeiðis verði lagað eða verkferlar endurbættir svo þetta endurtaki sig ekki.

Full ábyrgð. Hér er gengist við ábyrgð og beðið um fyrirgefningu.

Því alvarlegri sem krísan er því líklegra er að sýna þurfi fulla ábyrgð og biðjast afsökunar og fyrirgefningar. Reynslan hefur líka sýnt að þeir sem gera það koma oft betur út úr slíkum málum þegar frá líður. Svo á alltaf að segja satt og rétt frá, en það veistu.