Ég var svo heppin að vinna tvo öskudagsbúninga fyrir börnin mín í leik sem fór fram á ásjónubók. Takk Partýbúðin! Ég sem vinn aldrei neitt fór í gegnum hugann en svo hugsaði ég aðeins um þetta. Ég hef aldeilis unnið í lífinu, börnin mín, maka, vini, fjölskyldu, frábært starf og fleira.
Þessar hugleiðingar minntu mig á það þegar ég var yngri, einhleyp og barnlaus og hafði áhyggjur af að von mín um fjölskyldu myndi ekki rætast. Ég myndi ekki vinna í því lottói. Ég hefði verið mun rólegri og notið betur stundarinnar þá ef ég hefði getað séð fram í tímann í kristalskúlu fjölskylduna sem ég á í dag. Ég fékk stóra lottóvinninginn.
Kannski gleymist stundum að njóta þess sem er á vegi okkar þessa stundina vegna hugsana um fortíðina eða framtíðina. Ef við erum með annan fótinn í fortíðinni en hinn í framtíðinni missum við af því mikilvægasta, núinu.
Líf þar sem við sjáum allt fyrir fram í kristalskúlu er ekki til! Væri það hægt gætum við afstýrt áföllum og þyrftum ekki að hafa áhyggjur. Þannig er raunveruleikinn ekki því miður. Viðbrögð okkar og ákvarðanir byggja á þeim upplýsingum sem við höfum hverju sinni. Því er mikilvægt að falla ekki í hugsanaskekkju baksýnisspegilsins að ætla sér að geta séð hlutina fyrir eða geta tekið ákvarðanir út frá upplýsingum sem við höfum ekki þá stundina. Stundum getum við verið vitur eftir á.
Njótum þess sem er hér og nú, lærum af fortíðinni og vonum það besta fyrir framtíðina. Stundum vinnum við, meira að segja á ásjónubók!