Segjum nú sem svo að þjóðin væri eig­andi verslunar­mið­stöðvar á borð við Smára­lind. Þar væru reknar verslanir af öllum stærðum og gerðum. Plássin í verslunar­mið­stöðinni væru mjög eftir­sótt og verslanir í bið­röðum eftir að komast að.

Þarna væru stór­verslanir sem græddu á tá og fingri og þarna væru minni verslanir, þ.á.m. bóka­búð sem sér­hæfði sig í sölu á ljóða­bókum en af­koma þeirrar verslunar væri slök.

Hvernig mundi nú þjóðin, sem eig­andi verslunar­mið­stöðvarinnar, inn­heimta leigu af þeim verslunum sem þar væru? Lík­lega eru flestir sam­mála um að eðli­legast væri að inn­heimta sama verð á fer­metra. Fyrir stærri verslanirnar yrði það ekki vanda­mál en bóka­búðin ætti í erfið­leikum með að greiða upp­sett fer­metra­verð. Bóka­búðin gegnir lykil­hlut­verki sem menningar­mið­stöð og skiptir miklu að hún haldi á­fram. Tveir mögu­leikar eru aug­ljósir í stöðunni, lækka leiguna á fer­metra hjá öllum niður í það sem bóka­búðin treystir sér til að greiða eða inn­heimta sömu leigu hjá öllum en nota síðan ör­lítinn hluta inn­heimtrar leigu til að styrkja bóka­búðina svo hún geti starfað á­fram.

Ríkis­stjórnin lækkar leiguna

Ef nú­verandi ríkis­stjórnar­flokkar fá ein­hverju ráðið þá yrði leigan lækkuð niður í það sem dugir bóka­búðinni. Það þýðir auð­vitað stór­kost­legt happ fyrir stór­verslanirnar sem þurfa þá að­eins að borga mála­mynda­leigu og ríkið tæki m.a.s. að sér að sjá um ræstingu á verslunar­mið­stöðinni.

Er þessu ekki ein­hvern veginn svona háttað með sjávar­út­veginn? Reynt er að telja þjóðinni trú um að hún eigi fisk­veiði­auð­lindina (eins og hún gæti átt verslunar­mið­stöðina) en hún megi alls ekki fá þá leigu sem henni ber (fullt gjald) af þessari auð­lind. Ríkis­stjórnar­flokkarnir sjá til þess að stór­út­gerðin sleppi með til­vísun í „litlu“ út­gerðirnar og leigu­gjaldið er á­kvarðað til að tryggja af­komu þeirra sem lakast standa í stað þess að láta alla borga jafnt en hjálpa þeim litlu síðan sér­stak­lega.

Ljóst er að með þessari að­ferð fer eig­andi verslunar­mið­stöðvarinnar, þjóðin, á mis við veru­legar fjár­hæðir en eig­endur stóru verslananna eru vinir ríkis­stjórnarinnar svo þeim finnst þetta í lagi.