Mér líður aldrei vel í Kringlunni, ekki illa en ekki vel. Kringlan er eins og vakandi draumur: draumur um vinnuna, draumur um uppgjör við foreldri, maka eða æskuvin. Draumur sem ég vakna þreyttur eftir. Ég vil síður fara í Kringluna, en þangað verða öll að fara, kannski mánaðarlega eða á tveggja mánaða fresti. Þangað fer ég í stutterma skyrtu, í haustjakka, í vetrarúlpu, þegar ég á erindi við margs konar neyslu sem þarf að afgreiða á sem skemmstum tíma. Tíminn stendur í stað og ég gleymi því hvernig veðrið er, hversu mikil umferð var, hversu mörg smituðust í gær, að ég sé alvöru lifandi manneskja með þarfir, vonir og þrár. En öll þurfum við Kringluna, það er fasti; dauði, skattur, Kringlan.

Ég kaupi húðvörur og gleymi flóðunum í Vestur-Evrópu, ég kaupi spil og gleymi flóðunum í Kína og ég finn dofa, með tvo poka á vinstri handlegg. Ég skoða vistvænu vörurnar og gleymi skógareldunum í Norður-Ameríku. Ég er með fjóra poka og klappa mér á bakið fyrir að vera byrjaður að kaupa jólagjafir snemma í ár, eins og ég ætla alltaf að gera.

Ég fæ mér mat á Stjörnutorgi, fyrstu mathöllinni, og hnífapörin eru úr trefjaplasti sem er voða vistvænt og ég gleymi jöklinum Oki. Það er komið kvöld en ég veit það ekki, það er farið að dimma, farið að hausta en ég veit það ekki. Þegar ég stíg út úr Kringlunni losna ég úr álögunum og segist aldrei ætla aftur þangað inn, en það er lygi. Dauði, skattur, Kringlan.