Vorið er tími nýstúdenta og háleitra markmiða. Víða birtast myndir af ungu fólki með hvíta húfu og stoltum foreldrum. Ég hef farið í nokkrar stúdentsveislur og skálað fyrir ungum nýstúdent og árnað honum allra heilla. Foreldrar flytja venjulega fallega ræðu og hvetja stúdentinn til að láta gamla drauma mömmu eða pabba rætast á einhverri háleitri menntabraut.

Minn boðskapur til nýstúdenta er hins vegar að muna eftir Eyjólfi Kárssyni, sem Sturla frændi minn Sighvatsson lét drepa úti í Grímsey árið 1222. Nokkrum andartökum áður en hann var hogginn sagði Eyjólfur: „Vænti ég enn að koma muni betri dagar!“ Guðmundur góði biskup kvaddi fólk með þessum orðum: „Vertu góður við fátæka!“ Svona manngæska og æðruleysi er til eftirbreytni á okkar sjálfhverfutímum.

Mestu skiptir þó fyrir hvern nýstúdent að hafa að engu óskir og þrár foreldra sinna heldur hlusta á sinn innri mann. Egill afi minn Skallagrímsson orti ungur kvæði þar sem hann lýsir framtíðarvonum foreldra sinna. „Það mælti mín móðir að mér skyldi kaupa fley og fagrar árar “ o.s.frv. Í samræmi við vilja foreldranna gerðist hann víkingur og manndrápari. Ég held að Egil hafi langað mun frekar að læra viðburðastjórnun eða fatahönnun. Egill varð fyrir vikið þunglyndasta og kvíðnasta hetja sagnanna.

Sturla frændi Sighvatsson vildi verða skáld og blaðamaður en fylgdi ráðum foreldra sinna og gerðist herforingi. Hann var, eins og við frændurnir, ákvarðanafælinn sveimhugi, svo að hermennskan varð honum til lítillar gæfu. Sérhver nýstúdent verður að fylgja hjartanu. Annars endar hann sem óhamingjusamt gamalmenni eins og Egill afi minn og harmar glötuð tækifæri í ellinni.