Ólíkt vinahópnum í Villibráð virðast vinir mínir hafa meiri áhuga á að biðja mállíkanið ChatGPT um upplýsingar – og minni áhuga á að lesa dörtí skilaboð annarra. Nú veit ég ekki hversu djúp og krassandi dónaskilaboðin eru almennt en svör líkansins virka nokkuð gáfuleg. Þrátt fyrir að vera hvorki sérstaklega djúp né endilega rétt, frekar en fjölmargt á internetinu.

Það breytir því ekki að gervigreind er að breyta heiminum og okkar daglegu athöfnum hraðar og meira en við getum ímyndað okkur. Internetið færði okkur Google og aðgang að upplýsingum, ChatGPT vinnur svo úr hlekkjasúpunni – eitthvað sem oft er nothæft.

Allri tækni er ætlað að auka lífsgæðin og þetta hafa nemendur nú uppgötvað – enda töluvert fljótari að skrifa ritgerðir með hjálp líkansins. Sumir skólar hafa gripið til þess ráðs að banna notkun ChatGPT. Það mun ganga jafn vel og að banna notkun prentvéla Gutenbergs, sem færðu okkur þekkingu og breyttu heiminum.

Kannski er tíma nemenda betur varið í að vinna úr upplýsingunum – sem þeir hafa hingað til lært eins og páfagaukar – nýta sköpunargáfuna og búa til eitthvað sem eykur lífsgæðin.Sem betur fer verður notkun gervigreindar á öllum sviðum ekki stöðvuð. Besta leiðin til að dragast hratt og örugglega aftur úr er hins vegar að berjast gegn henni.

Tæknin er að breyta heiminum og nemendur kunna að nota hana. Erum við samfélag sem bannar notkun internetsins? Ætlum við að vinna með tækninni eða á móti henni? Lesendum er samt ráðlagt að biðja ChatGPT ekki um dónaskilaboð. Er mér sagt.