Í dag er vika eftir af stórmerkilegu og stórskrýtnu ári. Ári sem við höfum eytt í einangrun, sóttkví, samkomutakmörkunum, með grímur, að horfa á eldgos eða bíða eftir næsta skjálfta, ýmist í eins eða tveggja metra fjarlægð frá næsta manni.

Þessa árs verður einnig minnst sem ársins þegar forseti Bandaríkjanna hvatti til valdaráns, þegar aurskriður féllu á Seyðisfjörð, þegar Talibanar komust aftur til valda í Afganistan, þegar Britney var frelsuð, ársins þegar milljarðamæringar kepptust um geimferðir, árs gróðurelda, hamfaraflóða og veðurbreytinga, ársins þegar rafhlaupahjól urðu ferðamáti í Reykjavík, ársins þegar #MeToo-byltingin skók KSÍ og hetjur féllu af stalli.

Ég ætla að minnast desember sem mánaðarins þegar vinir ungrar konu, sem nýverið greindist með alvarlegan hrörnunarsjúkdóm, lýðvirkjuðu kærleikann. Facebook var notað til góðra verka og með séríslenskum samtakamætti var safnað í jólagjöf – svo konan gæti ferðast og búið til góðar minningar með dætrum sínum á meðan heilsan leyfir. Þetta gerir mig meyra og óendanlega stolta af samferðafólkinu í lífinu.

Við erum sérfræðingar í átaksverkefnum, spretthlaup eru okkar fag. Við semjum lög um að hlýða Víði og birgjum okkur upp af dósamat við fyrstu samkomutakmarkanir. Við getum staðið saman, erum þrautgóð á raunastund, þrjósk þegar þess þarf, útsjónarsöm þegar flest sund virðast lokuð. Nú þurfum við að æfa langhlaupið. Klára endasprettinn saman.

Kraftaverkin gerast nefnilega í desember, með rísandi sól, minningum um þau sem eru farin, ást og kærleika til fólksins okkar, sörum og hangikjöti. Gleðileg jól.