Við eignuðumst kött, við Hófí kærastan mín. Lítinn sætan kettling sem er hvítur með appelsínugulum blettum. Hún er læða sem heitir Lísa. Ég hef aldrei átt gæludýr fyrr, fyrir utan lítinn frosk sem ég sótti í læk á dönsku tjaldsvæði sem barn, sá lifði í einn dag eða tvo eftir að ég ættleiddi hann. Ég elskaði aldrei froskinn en ég elska Lísu. Ég elska Lísu meira en ég vissi að væri hægt að elska dýr. Ég hélt alltaf að fólk væri smá að djóka þegar það talaði um hversu mikið það elskar dýrin sín. „Haha, ok,“ hugsaði ég, „kötturinn þinn er sætur, en þú elskar hann ekkert í alvörunni.

Ekki eins og fólk elskar maka sinn eða barn, eða systkini eða foreldra eða vini, eða nýja sjónvarpið sitt, iPad eða heyrnartól. Þú elskar hann ekki eins mikið og fólk elskar húsið sitt eða peninginn sinn eða Engeyjar­ættin elskar fjármálaráðuneytið.“ Jú. Ég elska Lísu meira en þetta allt. Hjartað mitt stækkaði þegar ég fékk hana í hendurnar og ég táraðist næstum því þegar hún fékk sér fyrst vatn að drekka heima hjá okkur og kannski er það vegna þess að hún er með sömu andlitsbyggingu og ungbarn og líkaminn minn er að öskra á mig að fara að eignast barn. Kannski.

Kannski er það að Lísa mín er utan einhvers mengis. Henni er sama hvort Laugavegurinn verði göngugata eða hraðbraut, henni er sama hvernig meirihlutinn myndast í borginni og hún tilheyrir ekki svikinni grasrót. Lísa mín var ekki til þegar kosið var um Icesave, en hún hefði aldrei tekið þátt í æsingnum. Hún elskar alla jafnt sama hvar þeir standa í pólitíkinni. Nema fasista, Lísa mín hatar fasista og myndi bíta þá. Sama gildir með rasista, hómófóba, transfóba og karlrembur. Hún myndi bíta þá líka og klóra.