Suðurnesin eru landsvæði tækifæra. Í áratugi hefur fólk af öllu landinu auk erlendra íbúa leitað til Suðurnesja í atvinnuleit, fyrst í fiskvinnslu á svæðinu og síðar í flugvallarstarfsemi og ferðaþjónustu. Á Suðurnesjum finnst gróska hugvits og seiglu en við höfum lent í hinum ýmsu kreppum sem við höfum unnið okkur úr saman.

Atvinnuleysi var okkur erfitt á árunum 2020-2021 þar sem atvinnuleysi var mest hjá okkur af öllu landinu; 13,7% í maí 2021 og 9,1% í september meðan meðtals atvinnuleysi á landinu öllu var 5,1%. Það sem athyglisverðast var að atvinnuleysi kvenna var einnig mest á Suðurnesjum; 13,1% meðan meðaltalið fyrir landið allt var 6,5%.

Staða kvenna á Suðurnesjum er þó björt og horfir til bjartari vegar. Atvinnuleysi hefur minnkað um 17% undanfarna átta mánuði sem ber virkilega að fagna.

Kortleggjum tækifærin

Samfélagið okkar er að lifna við í takt við nýja Covid-tíma og ljóst er að tækifærin eru til staðar er kemur að atvinnusköpun kvenna, við þurfum bara að kortleggja þessi tækifæri.

Við þurfum að nýta okkur styrkleikana sem felast í fjölbreytileika samfélagsins á Suðurnesjum með því að styðja konur í að sækja fram og sameina þær til aukins sýnileika og þátttöku. Verður það gert með FKA Suðurnesjum sem er ný landsbyggðardeild Félags kvenna í atvinnulífinu, FKA.

Nýja deildin okkar mun leggja áherslu á nýsköpun og eflingu atvinnutækifæra kvenna á svæðinu með jákvæðni, seiglu og útsjónarsemi. Með því að efla þátt kvenna í samfélaginu, eflum við okkur öll.

Okkur vantar bjartsýni, gleði og aukna ásýnd kvenna í samfélagið okkar. Konur ættu að vera áberandi í rekstri fyrirtækja, stjórnunarstöðum og í stjórnum fyrirtækja. Það mun vera okkur öllum til heilla.

Komdu með okkur í vegferð kvenna á Suðurnesjum 26. nóvember næstkomandi.