Ljósaganga UN Women á Íslandi fer fram í dag, föstudaginn 25. nóvember kl. 17.00 á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Dagurinn markar upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi sem UN Women á Íslandi er í forsvari fyrir ásamt fjölda annarra öflugra félagasamtaka hér á landi. Af þessu tilefni verður Harpa lýst upp í appelsínugulum lit.

Yfirskrift Ljósagöngunnar í ár er Konur, líf, frelsi eða Zan, Zendegi, Azadi sem, eins og þekkt er orðið, er slagorð mótmælanna sem hafa staðið yfir í Íran í tæpa 3 mánuði. Í ár beinir 16 daga átakið gegn kynbundu ofbeldi kastljósinu að kvenmorðum (e. Femicide) um allan heim. En samkvæmt tölum frá UN Women voru 81.000 konur um allan heim myrtar árið 2020. 58% þeirra voru myrtar af maka eða öðrum nákomnum aðila. Það samsvarar því að ein kona sé myrt á heimili sínu á 11 mínútna fresti. Kvennmorð er hatursglæpur sem beinist að konum og stúlkum fyrir það eitt að vera kvenkyns og eru því gróf brot á grunnmannréttindum kvenna og rétti þeirra til lífs, frelsis og öryggis.

Áratuga barátta fyrir kvenfrelsi gufar upp

Við höfum vafalaust flest fylgst agndofa með baráttuþreki og hugrekki íranskra kvenna á síðastliðnum mánuðum. Sem berjast nú fyrir kvenréttindum, lífi sínu og frelsi. Í tilfelli landa á borð við Afganistan og Íran, eru kvenmorð gjarnan framin af ógnarstjórn ríkjanna. Meðal annars fyrir brot á harðneskjulegum lögum sem takmarka verulega mannréttindi þeirra og frelsi.

Í síðustu viku bárust fregnir af því að Talibanastjórnin hefði skipað dómstólum í landinu að koma á fullum sjaríalögum þar í landi. Ljóst er að slík breyting er gífurlega hættulegt pólitískt tæki til að sporna gegn útbreiðslu á lýðræði og mannréttindum. Með þessu sýna talíbanar að þeim er fúlasta alvara með að afnema að fullu þau réttindi sem konum í Afganistan áskotnuðust á síðustu áratugum. Þær framfarir sem höfðu orðið hverfa með einu pennastriki. Ári eftir valdatöku Talibana í Afganistan geta konur unnið að takmörkuðu leyti og þurfa að vera í fylgd karlmanna ef þær þurfa að ferðast langar vegalengdir, aðgengi þeirra að samfélaginu hefur í raun og veru verið þrengt gífurlega. Þær mega til að mynda ekki lengur koma í líkamsræktarstöðvar, baðhús eða almenningsgarða og er skylt að hylja höfuð með slæðum þegar þær fara úr húsi.

Jina (Masha) Amini – nafnið sem ekki gleymist

Í Íran hafa staðið yfir mótmæli til stuðnings Jina (Masha) Amini, sem lét lífið í haldi lögreglu um miðjan september eftir að hafa verið handtekin af velsæmislögreglu í Teheran. Hún var aðeins 22 ára þegar hún var myrt en nafn hennar mun aldrei gleymast. Mótmælin hafa verið leidd af hugrökkum konum sem gera sér grein fyrir þeirri hættu sem þær eru í, fyrir það eitt að tjá sig og óhlýðnast yfirvöldum. En velja að gera það samt. Á hverjum degi flykkist fólk út á götur og stræti og hrópar slagorð gegn kúgunarstjórn Íran. Mótmælendur í Íran hafa verið dæmdir til dauða fyrir vikið og er ríkur vilji hjá írönskum þingmönnum að refsa mótmælendum harðlega. Óttast mannréttindasamtök víða um heim að fjöldaaftökur gætu verið yfirvofandi í landinu.

Með því að taka þátt í Ljósagöngunni í ár, sýnum við táknræna samstöðu með þeim hugrökku konum sem leggja líf sitt í hættu á hverjum degi með vonarneista um betri og frjálsari heim þar sem mannréttindi þeirra eru virt. Ljósberar sem leiða gönguna í ár eru Íranir og Afganir sem búsettir eru á Íslandi. Þau eiga það sammerkt að hafa notað rödd sína hérlendis til að vekja athygli á stöðu mála í heimalöndum sínum og berjast úr fjarlægð með fólkinu sínu sem trúir og berst fyrir frjálslyndari gildum en þeim sem ríkjandi eru í heimalöndum þeirra. Við hvetjum ykkur öll til að gera slíkt hið sama og mæta á Arnarhól í dag klukkan 17.00 og sýna þannig stuðning við baráttu þeirra og að mannréttindi allra séu virt alls staðar.