Nýjar rannsóknir á tengslum áfalla í æsku og heilsufar síðar á lífsleiðinni styðja sífellt betur þá staðreynd að ofneysla áfengis eða annarra vímuefna verður ekki til í tómarúmi. Að baki fíkninni býr oftar en ekki saga um áföll og ofbeldi sem vinna þarf með á bataleiðinni. Kyn hefur líka áhrif, það að fæðast kona í karllægum heimi veikir stoðirnar og því er nauðsynlegt að meðferð við fíkn taki mið af því.

Rót vandans

Í áfengis- og fíknimeðferð þarf að ráðast að rótum vandans. Ef það er ekki gert er sífellt verið að setja plástur á sár sem ekki fær að gróa. Spítalapláss í afvötnun er ekki lækning við fíknivanda og leysir hvorki bráðan neysluvanda hjá ungmennum né eldra fólki. Einstaklingar með fíknivanda þurfa að fá sérhæfða meðferð. Þess vegna þurfum að vera stórhuga og hafa hugrekki til að breyta öllu meðferðarkerfinu á Íslandi, það á ekki að snúast um það að útvega fólki sem á rúm, rúm. Það hversu mörg rúm eru í boði fyrir fólk með fíknivanda er því ekki frekar mælikvarði á slæma stöðu í fíknimeðferðarkerfinu en hversu langir biðlistarnir eru.

Eða heldur einhver að þjónusta á Reykjalundi hafi versnað þó að rúmum þar hafi fækkað?

Hvað fela áfalla- og kynjamiðaðar nálganir í sér

Lykilhugtök í nútímanálgun á meðferð og stefnumótun að því er varðar fíknivanda eru

-áfallamiðun (e. Trauma-informed),

-kynjuð stefna og framkvæmd (e. Gender and sex informed policy and practice) og

-aðferðir sem auka jafnrétti (e. Gender transformative approaches)

Markmið áfallamiðaðrar nálgunar er að koma í veg fyrir að áföll séu endurvakin og að auka öryggi, val og sjálfstjórn þjónustuþega. Kynjuð stefna og framkvæmd miðar að því að tekið sé tillit til líffæra- og lífeðlisfræði og annarra líffræðilegra þátta sem hafa áhrif á neyslu og meðferð einstaklinga. Hún tekur einnig til þess með hvaða hætti félagslegir þættir eins og kynhlutverk- og sambönd, hefðir, kynímynd og stefna, er varðar kyn og kyngervi, hafa áhrif á neyslu og meðferð. Aðferðir sem auka jafnrétti og leiðrétta valdamisrétti kynjanna miða að því að rannsaka og breyta neikvæðum staðalímyndum kynjanna. Slík nálgun eykur jafnrétti í úrræðum fyrir fólk með fíknivanda.

Konur hafa rödd!

Rótin býður upp á námskeið fyrir konur sem glímt hafa við fíknivanda. Á námskeiðinu er lögð áhersla á að fíknivandi sé afleiðing af áfalli eða öðrum fjölþættum vanda í lífi kvenna og að neyslan því einkenni en ekki frumorsök. Markmiðið með hópastarfinu er að konurnar öðlist aukna sjálfsþekkingu og að þær geti byggt framtíð sína og betra líf á styrkleikum sínum. Í kjölfarið munu sjálfshjálparhópar, Rótarhópar, taka til starfa.

Rótin varð til fyrir fimm árum af því að ekki var hlustað á okkar sjónarmið í ríkjandi kerfi. Meðferðarstofnun á að vera öruggur staður fyrir konur og tak mið af því gríðarlega ofbeldi sem konur verða fyrir á lífsleiðinni og vera áfalla-, kynja- og einstaklingsmiðuð. Síðast en ekki síst viljum við að frásagnir kvenna sem greina frá kynferðisofbeldi eða áreitni í meðferð séu teknar alvarlega.

Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar