Atburðarás í heitum potti í íslenskum sumarbústað hefur verið í deiglunni undanfarið. Atvik í öðrum potti, sem átti sér stað fyrir nákvæmlega aldarfjórðungi í þessum mánuði, svífur yfir vötnum.

Handóðir, miðaldra karlar

Hinn 16. janúar 1997 er hin árlega kvikmyndahátíð Sundance sett í Utah í Bandaríkjunum. Þekkt leikkona, Rose McGowan að nafni, er þangað komin til að kynna nýjustu kvikmynd sína. Ári áður hafði McGowan slegið í gegn í myndinni Scream sem hlaut lof gagnrýnenda og gríðarlega aðsókn.Þegar áhrifamesti kvikmyndaframleiðandi Hollywood boðar McGowan á fund sinn er hún upp með sér. „Ég held að líf mitt sé loks að verða auðveldara,“ segir hún, þegar hún kveður myndatökumenn sjónvarpsstöðvarinnar MTV, sem eru að gera um hana heimildarmynd, og bankar á hurð hótelherbergis Harvey Weinstein.

Dyrnar opnast. McGowan býður aðstoðarmönnum Weinstein góðan daginn en þeir líta undan og yfirgefa herbergið. McGowan og Weinstein ræða málin. Þegar fundinum lýkur vill Weinstein fá að sýna henni nuddpottinn sinn. Weinstein vísar McGowan inn á baðherbergi.

Í ævisögu sinni lýsir McGowan andartakinu þegar líf hennar breytist í martröð. Weinstein gnæfir yfir henni, stór á alla kanta, grófgerður, illúðlegur með fitugt andlit þakið örum – eins og tröll, eins og bráðnandi ananas. Því næst stekkur hann á hana, rífur hana úr fötunum, lyftir henni upp og skellir henni ofan í nuddpottinn. Hann skorðar hana upp við vegg og þvingar fótleggi hennar í sundur. Sírenur glymja í höfði McGowan. „Vaknaðu, Rose. Vaknaðu.“

Það er sem hún svífi upp úr eigin líkama og horfi niður á atvikið þegar Weinstein kemur vilja sínum fram við hana.Líf Rose McGowan varð aldrei samt. „Sorgin heltók mig,“ segir hún í ævisögunni. „Kynferðislegt ofbeldi sviptir mann getunni til að vera manneskjan sem maður var og það stelur manneskjunni sem manni var ætlað að verða.“

Í kjölfar Sundance-hátíðarinnar reyndi Rose McGowan að leita réttar síns en án árangurs. Það var ekki fyrr en tuttugu árum síðar að skriður komst á málið. Metoo-byltingin hófst árið 2017 þegar fjöldi kvenna, með Rose McGowan í fararbroddi, sakaði Harvey Weinstein um kynferðislega áreitni og kynferðisofbeldi.Síðan þá hafa margir velt upp spurningunni hvort byltingin hafi í raun áorkað einhverju. Svarið virðist vera að skila sér.

Í vikunni hafnaði dómari í New York kröfu Andrésar Bretaprins um að einkamáli Virginiu Giuffre gegn honum yrði vísað frá. Giuffre er eitt fórnarlamba Jeffrey Epstein, dæmds kynferðisbrotamanns. Í viðtali við Breska ríkisútvarpið sagði Guiffre frá því hvernig Epstein misnotaði hana og lét hana svo ganga á milli valdamikilla vina sinna „eins og ávaxtabakka“. Þeirra á meðal kveður hún hafa verið næstelsta son Englandsdrottningar.

Fjórir handóðir, miðaldra karlar og ein ung kona í heitum potti. Ekki er langt síðan slík saga hefði vakið hlátrasköll og aflað mönnunum klapp á bakið í einhverjum gufufylltum búningsklefanum. En nú er öldin önnur.Weinstein situr inni. Epstein fyrirfór sér í fangaklefa eftir að hafa verið ákærður fyrir mansal.

Andrés prins var í vikunni sviptur titlum sínum og selur nú skíðahótelið sitt til að greiða lögfræðingunum sínum. Áhrifa Metoo-byltingarinnar er farið að gæta innan réttarkerfisins. En stærsti árangur Metoo-byltingarinnar kann að vera annar.

Nákvæmlega tuttugu og fimm árum eftir að líf leikkonunnar Rose McGowan var lagt í rúst í einum potti gætir skyndilegrar allsherjar viðhorfsbreytingar í kjölfar atviks í öðrum potti. Loksins, árið 2022, virðist ríkja samhljómur um að konur eru ekki ávaxtabakkar.