Haustið 2020 var tekin sú á­kvörðun að tæma Ár­bæjar­lón til fram­tíðar og kom það mörgum veru­lega á ó­vart, ekki síst í­búum í kringum lónið. Sjálfur ólst ég upp í grennd við lónið og vakti því á­kvörðunin upp heitar til­finningar hjá mér. Ég taldi að kol­röng á­kvörðun hefði verið tekin og að hætta ætti við þessa fyrir­ætlan í­búum enda sam­ræmdist það ekki deili­skipu­lagi borgarinnar þegar lónið var tæmt á sínum tíma. Enn stendur styr um lónið og ný­verið var lögð fram kæra til um­hverfis- og skipu­lags­sviðs Reykja­víkur­borgar vegna um­ræddrar fram­kvæmdar. Hún byggir að miklu leyti á því að ekkert sam­ráð hafi verið haft við íbúa.

Meiri­hlutinn í Reykja­vík hefur lyft grettis­taki þegar kemur að sam­ráði við íbúa borgarinnar í tengslum við fram­kvæmdir sem ráðast skal í. En það verður að viður­kennast að í þessu máli, sem var á for­ræði Orku­veitu Reykja­víkur, skorti veru­lega upp á upp­lýsinga­flæði. Það meira að segja viður­kenndi for­maður í­búa­ráðs Ár­bæjar og for­maður stýri­hóps um Elliða­ár­dal. Þegar kemur að fram­kvæmdum í borginni þá verður að tryggja virkt sam­tal, gott upp­lýsinga­flæði og fá öll sjónar­mið upp á borðið. Til þess að borgar­búar geti treyst stjórn­völdum verður að vanda vel til verka.

Að mínu mati er enn spurningum ó­svarað þegar kemur að Ár­bæjar­lóni og margir í­búar í sárum. Ég hvet Orku­veitu Reykja­víkur til þess að endur­skoða af­stöðu sína, gera könnun meðal íbúa og gefa þeim kost á að segja sína skoðun á nær­um­hverfi sínu. Þannig má ná sátt um málið.