Nú eru aðeins örfáir dagar í að miðaldra Facebook-notendur byrji að kvarta undan flugeldaskotum á hverfasíðunum. „Er þetta ekki bara komið gott?“ spyr hundleitt fólkið og bendir tillitslausum nágrönnum sínum á að áramótin eru löngu liðin.

Í fjögur ár hef ég ritað þanka mína á þessa baksíðu og þetta er hundraðasti bakþankinn minn. Þetta er jafnframt sá síðasti. Það er oftar en ekki skemmtilegt að setja hugleiðingarnar niður á blað og fyrir mann sem hefur aldrei farið á Twitter, getur verið vandasamt að tjá sig í mjög stuttu máli ef vel á að vera. Eins og gengur og gerist hefur sumum pistlum verið vel tekið en öðrum illa.

Þótt mér þyki vænt um hrósin þá er ekki síður áhugavert að lesa ummæli þeirra sem finnst skrif mín hræðileg. Hneykslað og móðgað (þó yfirleitt fyrir hönd annarra) notar fólk sín ljótustu lýsingarorð til að lýsa áliti sínu á manni sem það hefur aldrei hitt á ævinni. Það er býsna áhugavert því aldrei myndi fólk þora að tala svona augliti til auglitis. Maður skilur vel að hófstillt fólk veigri sér við að tjá sig opinberlega því fæstir kjósa að fá yfir sig flóðbylgju svívirðinga frá ókunnugu fólki. Samfélagsmiðlar stuðla seint að bættri umræðuhefð en eru þess í stað prýðis vettvangur fyrir heilalaus skoðanaskipti og sjálfshól. Það skal engan undra að áhrifavaldarnir velja að eiga þar lögheimili.

En engum er hollt að vera árum saman með stöðuga bakþanka og fylgjast með samfélagsmiðlaumræðunni í kjölsogið. Eins og með flugeldana þá held ég að þetta sé bara komið gott. Takk fyrir mig.