2020 má fara í fúlan pytt fortíðar. Þrátt fyrir hófsamar væntingar var þetta ár ekki gott. Það var ekkert hryllingsár fyrir mig persónulega heldur var það aðallega bara leiðinlegt. Ég hef því miklar væntingar til ársins 2021 en þar leynist ýmislegt sem við getum glaðst yfir eða hlakkað til. Þegar þú lest þetta er Donald Trump orðinn valdalaus með öllu og vonandi ekki annað en slæm minning. Svona eins og slæm veikindi sem við hugsum til með hryllingi. Verði ákæra gegn honum staðfest getur hann aldrei boðið sig aftur fram.

Mestu vonbrigði síðasta árs var Eurovisionkeppnin sem blásin var af. Keppni sem við áttum að vinna. Okkar tími kemur þó samt í vor þegar langi maðurinn með síða hárið krúttar yfir sig og heimurinn mun falla í dá. Íslenska þjóðin fær loks að takast á við kvíðann sem hefur hrjáð hana síðan Gleðibankinn vann ekki árið 1986. Hvar eigum við að halda keppnina? Svo getum við vonandi fljótlega aftur farið að upplifa það að setjast inn í bíl kl. ca. 3.45 með tóman maga og volgan kaffibolla á leið til Keflavíkur. Ósofin í flug, sem vegna séríslenskra aðstæðna fer í loftið allt of snemma. Slíkt fyllir mann strax tilhlökkun.

Að endingu kynnti heilbrigðisráðherra á dögunum áform um að lögum verði breytt í þá átt að við skilgreinum fíkniefnaeytendur sem sjúklinga en ekki glæpamenn og líkur þá vonandi ömurlegu stríði gegn fárveiku fólki. Það væri mikið fagnaðarefni ef þessi áform verða samþykkt með lagasetningu á vorþingi 2021. Vonandi verður samt árið 2021 þekktast fyrir það að hafa komið þessari veiru frá rétt eins og fyrrverandi Ameríkuforseta. Það væri nokkuð vel af sér vikið.