Nýliðnar kosningar eru um margt áhugaverðar. Framsókn vann stórsigur um allt land en Sjálfstæðisflokkur tapaði. Hægt er að draga þá ályktun að heiðarleiki og samvinnuhugsjónin séu þau gildi sem ollu straumhvörfum. Stórsigur Framsóknar í Mosfellsbæ ber þessum áherslum glöggt vitni. Niðurstaðan þar varð 32,2% fylgi og fjölgun bæjarfulltrúa úr engum í fjóra.

Hvað olli þessum sigurskjálfta? Listinn var leiddur af Höllu Karen Kristjánsdóttur sem hefur í áratugi sinnt sínum störfum af leikgleði, heiðarleika og trausti. Hún er konan sem framkvæmir hlutina og hlúir að öllu og öllum í sínu nærumhverfi. Með sér hafði hún „verkfærasett“ af hæfu fólki sem vinnur af gleði, reynslu og heiðarleika. Eftir hrun síðustu ára hefur verið eftirspurn eftir einmitt þessu. Traustu fólki sem stígur fram og er tilbúið til að þjóna samfélaginu. Fólk sem er tilbúið til að vinna í samvinnu, trausti og heiðarleika að umbótum og ekki bara rétt fyrir kosningar heldur alla leið!

Fagurgali rétt fyrir kosningar og endalausir loforðalistar um rósrauða heimsmynd þar sem allir fá sitt en aldrei verður uppfyllt eru ekki í tísku lengur. Orð um ábyrga fjármálastjórnun en á sama tíma afhending sameiginlegs auðs í hendur fárra er ekki í tísku og verður aldrei. Við viljum fólk sem hugsar um alla heildina. Fólk sem tryggir velsæld þeirra sem á þurfa að halda en á sama tíma hvetur til framfara og einstaklingsframtaks. Fólk sem vinnur í heiðarleika, trausti og gleði. Við viljum fólk eins og Höllu Karen inn í stjórnmálin og þá farnast okkur sem samfélagi vel. n