Nú hafa menn áróðurs og græðgi afrekað það að flytja lambakjöt frá Nýja-Sjálandi til Íslands yfir hálfan hnöttinn. Hér kjöftuðu upp skortstöðu þeir Ólafur Stephensen og Andrés Magnússon og landbúnaðarráðherra gaf þeim fyrirheit um að við þessu yrði brugðist, fyrirheit sem hann varð að hætta við og svíkja þá um, hvað eftirgjöf á tollum varðar. Málið strandaði í ríkisstjórninni. Mikið er talað um matarsóun, kolefnisfótspor og að bjarga jörðinni frá ofhitnun og dauða. Við eigum á Íslandi einstaka auðlind í villibráð sem gengur í guðsgrænni náttúrunni allt sumarið, blessuð lömbin, og flest heimili vilja alls ekki að lambakjöt sé flutt hingað erlendis frá og bændurnir eru gæslumenn byggðanna og gera þær blómlegar. Íslenskir bændur þjóna sínum neytendum einstaklega vel með heilbrigðar matvörur og margir segja að hvergi í veröldinni setjist fjölskyldan að jafn öruggu matborði og hér. Nú auglýsir verslun ein frosna hryggi frá Nýja-Sjálandi komna alla þessa leið, að ríkið fái 40% af þessu gamla kjöti í sinn hlut.

Ég vil biðja ágætan umhverfisráðherra, Guðmund Inga Guðbrandsson, að reikna út kolefnisfótsporið af því að flytja hingað 100 tonn af lambakjöti frá Nýja-Sjálandi sem mun enn fremur valda matarsóun. Ég veit og finn að íslenskir neytendur kæra sig ekki um þetta stríð og biðja um íslenskt lamb á diskinn sinn. Þarna eru gerð hastarleg mistök og kaupmenn hringinn í kringum landið munu ekki vilja selja annað en íslenska lambið. Ég skora á bændur, neytendur, kaupmenn og sláturleyfishafa að hefja þegar undirbúning að samvinnu til að svona gerist aldrei aftur. Gerum kröfu um að allt kjöt sé upprunamerkt og þessu nýsjálenska kjöti verði ekki umpakkað og selt sem íslenskt, í raun þannig smyglað inn á markaðinn. Ég bið umhverfisráðherra að blanda sér í þessa umræðu og láta reikna út kolefnissporið af svona gerræði.