„Hjartað byrjaði að flökta og kvíði helltist yfir hann. Svona kvíði þar sem hann var farinn að fá ranghugmyndir um vini sína,“ sagði vinkona mín um líðan sonar síns. Hann hafði vanið sig á kaffidrykkju.

Neysla koffíns meðal unglinga verður æ algengari og meira en tvöfaldaðist frá 2016 til 2018. Tímaritið Food and Chemical Toxicology birti á dögunum rannsókn eftir prófessor Þórhall Inga Halldórsson og félaga þar sem gerð var landskönnun á koffínneyslu 13 til 15 ára íslenskra unglinga.

Niðurstöðurnar eru fyrir margar sakir áhugaverðar. Í ljós kom að eftir því sem krakkarnir drukku meira af koffíni því verri reyndist bæði líkamleg og andleg heilsa þeirra.

Þau sem drukku mest koffín voru oftar einmana, reið, taugaspennt og kvíðin. Höfuðverkjaköst og kviðverkir voru einnig algengari. Það sem meira er, koffínbörnin voru næstum fimmfalt líklegri til að sofa minna en sex klukkustundir á nóttu.

Þessar niðurstöður vekja ugg í brjósti því helmingur 15 ára barna neytir nú orkudrykkja með koffíni.

Rannsóknin sýnir svart á hvítu að við erum ekki að gera nógu vel í að vernda börnin okkar gegn koffín-æðinu sem dreifist líkt og faraldur. Þetta er galið því við vitum vel að samhliða koffínþambinu eru svefntruflanir og kvíði á hraðri uppleið meðal unglinga.

Drengurinn með kvíðann tók sjálfur eftir að honum leið betur þá daga sem hann fékk sér ekki kaffi og ákvað að hætta að drekka það. Hann er hættur að finna fyrir hjartaflökti og kvíða. Við getum þó ekki ætlast til þess að öll börn átti sig sjálf á skaðsemi koffíndrykkja.

Á endanum er ábyrgðin okkar foreldranna að leiðbeina, stjórnvalda að setja reglur og söluaðila að hætta að selja koffíndrykki til barna.