Skoðun

Klúður á Þingvöllum

Óneitanlega vekur furðu að fyrirfram hafi verið reiknað með þúsundum gesta á hátíðarfund Alþingis á Þingvöllum 18. júlí og lögregla og Vegagerð því gert ráðstafanir til að stýra umferð inn á svæðið. Ekki var nokkur þörf á að hafa stjórn á umferðinni því þjóðin lét ekki sjá sig. Það hefði ekki átt að koma nokkrum manni á óvart. Fundurinn var haldinn í miðri viku þegar fólk er almennt við vinnu. Dagskráin var heldur ekki líkleg til að vekja brennandi áhuga, þar sem hún samanstóð aðallega af ræðuhöldum alþingismanna. Við það bættist að þjóðinni hafði verið tilkynnt að þegar hún væri komin til Þingvalla skyldi hún halda sig á ákveðnu svæði, í dágóðri fjarlægð frá þingmönnum og fínni gestum. Þingmenn eru ekki náttúruundur þannig að almenningur sá enga ástæðu til að mæta og horfa á þá aðdáunaraugum úr hæfilegri fjarlægð.

Fundur sem þjóðin hafði ekki áhuga á og virtist ekki ætla að taka eftir varð síðan að þrætuepli vegna eins gests, Piu Kjærsgaard, stofnanda Danska þjóðarflokksins, sem er forseti danska þingsins. Hún er þekkt fyrir mannfjandsamlega stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks. Það að manneskja með slík viðhorf skuli gegna embætti þingforseta bendir óneitanlega til að sitthvað sé rotið í Danaveldi.

Það verður hins vegar að hafa í huga, og skiptir allnokkru máli, að Kjærsgaard hélt ræðu sína á Þingvöllum sem forseti danska þingsins, en ekki sem einstaklingur að básúna ansi vondar skoðanir. Ekkert í ræðu hennar var þess eðlis að það kostaði uppnám eða kallaði á fordæmingu. Þingmenn hefðu því allir átt að geta mætt, setið í sætum sínum og hlustað á hefðbundna hátíðarræðu forseta danska þingsins án þess að fyllast ógleði. Enginn hefði samt álasað þeim fyrir að vera mæðufullir innra með sér vegna þess hversu illa er komið fyrir vinaþjóð okkar Dönum sem leiðir til áhrifa fólk með ómannúðleg viðhorf.

Hátíðarfundur á Þingvöllum vegna aldarafmælis fullveldisins á ekki að valda ólgu. Óhjákvæmilegt var að órói myndi skapast vegna þátttöku Kjærsgaard á hátíðinni og undarlegt að ekki skuli hafa verið hugað að því í upphafi. Varla hefði verið erfitt að kalla til leiks í stað hennar danskan fulltrúa sem minni styrr stendur um.

Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, segir að lengi hafi legið fyrir að Kjærsgaard myndi halda ræðu á fundinum og furðar sig á hörðum viðbrögðum einstaka flokka og þingmanna. Furða hans vekur furðu. Ef hann sá ekki sjálfur í upphafi hversu umdeild þessi ákvörðun myndi verða, sérstaklega hjá upphlaupsflokkum eins og Pírötum og Samfylkingu, hefði einhver átt að segja honum það.

Hátíðarfundurinn á Þingvöllum var klúður. Þjóðin mætti ekki. Sennilega hafði hún á tilfinningunni að henni væri helst ætlað að vera í hlutverki statista fyrir sjónvarpsmyndavélar. Það eina minnisstæða frá hátíðinni er umdeild kona sem hélt ræðu. Enginn man samt hvað hún sagði, en það voru víst bara sjálfsagðir hlutir sem sagðir eru í innihaldslitlum hátíðarræðum.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fastir pennar

Þetta reddast alls ekki
Kjartan Hreinn Njálsson

Skoðun

Landsnet í eigu þjóðar
Kolbeinn Óttarsson Proppé

Skoðun

Að fá sér hund og halda hann svo í búri
Hallgerður Hauksdóttir

Auglýsing

Nýjast

Hver þarf óvini með þessa vini?
Haukur Örn Birgisson

Tíminn
Guðmundur Brynjólfsson

Tæknibyltingu í grunnskóla
Katrín Atladóttir

Mann­réttinda­yfir­lýsing Sam­einuðu þjóðanna sjö­tug í dag
Margrét Steinarsdóttir

Einlægni
Kolbrún Bergþórsdóttir

Skálkaskjól
Guðmundur Steingrímsson

Auglýsing