Ég held oft fyrirlestra og námskeið. Ég er alltaf stressuð að klikka á því að mæta í mína eigin fyrirlestra.
Þegar maður vinnur hjá sjálfum sér og er út og suður alla daga eykst hættan á því að eitthvað fari forgörðum í skipulagningunni.
Mig langar vera í góðu jafnvægi og ekki stressuð. Ég er að reyna að treysta flæðinu í heiminum, að allt sé eins og það á að vera.
Það er mjög erfitt. En það er samt svo ótrúlegt að yfirleitt einhvern veginn bjargast alltaf allt. Og ég hugsa oft eftir á: „ég hefði getað haft minni áhyggjur af þessu“.
Þegar ég er í mikilli streitu þá er ég alltaf að skoða símann minn. Logandi hrædd um að ég sé að gleyma einhverju.
Það hefur verið mikið að gera undanfarið en ég náð að halda streitu í skefjum. Mjög ánægð með mig.
En þá gerðist það sem ég hef oft hugsað um í gegnum árin (og vonað að gerðist ekki). Ég steingleymdi fyrirlestri.
Ég var salíróleg að snuddast eitthvað þennan daginn. Búin að ákveða að ég ætti frí og fór að hreyfa mig, þvo hárið og dúllast svona eitthvað. Fer svo af rælni í tölvuna og sé að ég á að vera mætt til að halda tölu.
Það kom á mig mikið fát, ég var ómáluð með blautt hár á nærbuxunum.
Ég leit á símann og sá ósvöruð símtöl.
Ég hringdi strax óðamála í þá indælu og góðu konu sem hafði ráðið mig. Hún var alveg einstaklega ljúf við mig.
Ég þakka henni ástsamlega fyrir.