Hvimleið ára klúðurs og almenns sleifarlags svífur enn yfir nýsettu Alþingi. Í það minnsta þegar talningar og úthlutun þingsæta eru annars vegar, og sem fyrr tókst Birgi Ármannssyni að vera í brennidepli þegar formaður kjörbréfanefndar lét það verða sitt fyrsta verk sem nýr forseti Alþingis að draga kúlur í sæta­bingói þingsins upp úr röngum kössum.

Þótt ætla megi að Birgir sé kominn með bráðaofnæmi fyrir endurtalningum og uppkosningum hvers konar, neyddist hann til þess að gera fundarhlé á meðan bingókúlurnar voru flokkaðar og hægt að hefja leikinn að nýju.

Bigga lottó

Málið er að vonum viðkvæmt þar sem misgóð sæti og sessunautar eru í húfi. Birgir hefur sjálfur þótt afar farsæll í sætahappadrættinu og hefur notið þess að þingflokksformönnum eru tryggð góð sæti og sem forseti nýtur hann friðhelgi.

Hann var til dæmis afskaplega hress með að dragast við hlið Ingu Sæland 2019, en skildi nú við hana með því að draga Bergþór Ólason handa henni í sinn stað. Grunnt hefur verið á því góða milli Ingu og klaustursgengis Bergþórs og spurning hvort Inga sæti færis úr norðvesturátt og krefjist uppdráttar í ljósi kassaklúðursins í upphafi þingfundar.