Eitt­hvað mikið hefur farið úr­skeiðis. Ís­land er eitt þróaðasta ríki í heimi, efnað land með fáa íbúa og öfluga inn­viði, þar sem vilji til bólu­setningar er ríkur. Þjóðin ætti, við venju­legar kring­um­stæður, að hafa alla burði til þess að bera sig saman við vest­ræn ríki sem standa utan Evrópu­sam­bandsins, á borð við Bret­land og Banda­ríkin. Í Bret­landi stendur öllum sem komnir eru yfir fimm­tugt nú til boða bólu­setning og í Banda­ríkjunum stendur til að nægt bólu­efni verði til fyrir alla í lok maí, auk þess sem bæði ríkin hafa fest eins konar frelsis­daga í daga­talið í vor og sumar, þegar öllum hömlum verður af­létt.

Á meðan höfum við horft upp á tafir og meiri­háttar klúður í bólu­setningar­á­ætlun stjórn­valda, sem var af ó­skiljan­legum á­stæðum út­vi­stað til ESB. Enn er ekki einu sinni búið að bólu­setja alla eldri borgara hér á landi og fyrir­ætlanir um bólu­setningar hafa nú tafist um heilan mánuð, og ráða­menn yppa bara öxlum við þeim tíðindum. „Þetta er graut­fúlt, en svona er þetta og svona er þessi veira,“ voru við­brögð for­sætis­ráð­herra við því þegar fréttir bárust um að AztraZene­ca-bólu­efnið, stór liður í bólu­efnis­öflun landsins, hefði tíma­bundið verið sett til hliðar. Fáir leggja traust sitt á að á­ætlun stjórn­valda um að búið verði að bólu­setja alla Ís­lendinga yfir 16 ára aldri í lok júlí muni ganga eftir.

Hver dagur sem þjóðin er óbólu­sett er ó­heyri­lega dýr. Ferða­þjónustan er mikil­vægari fyrir okkur en flestar ná­granna­þjóðir, ríkis­sjóður tapar milljörðum ofan á milljarða og safnar skuldum á hverjum degi – en hreinar skuldir ríkisins hafa aukist um nærri 300 milljarða á síðustu tólf mánuðum. Þá er tæpast hægt að setja verð­miða á tjónið sem skorður á at­hafna­frelsi, ferða­frelsi og al­mennum mann­réttindum kosta; glötuð tæki­færi, skortur á annarri heil­brigðis­þjónustu, versnandi and­leg heilsa og ein­fald­lega glötuð lífs­gæði, því líf sem lifað er undir þrúgandi boðum og bönnum til lengdar getur vart talist líf. Því miður hefur far­aldurinn hins vegar fest í sessi þann hugsunar­hátt hjá stórum hópi að á­vallt sé rétt­lætan­legt að hefta frelsi fólks ef ein­hver hætta kann að vera á ferðinni.

Bólu­setningar­klúður stjórn­valda, sem er einkum á á­byrgð heil­brigðis­ráð­herra, eru af­glöp af áður ó­þekktri stærðar­gráðu.

Með öflugri for­ystu hefði mátt bólu­setja þjóðina mun fyrr, opna landið og af­nema um leið þær skerðingar á dag­legu lífi sem við höfum búið við. Bar­áttan um bólu­efnin er enginn leikur heldur al­vöru slagur. Við sjáum það af því kalda stríði sem nú ríkir á milli Bret­lands og ESB, þar sem út­flutnings­banni er svarað með efa­semdum um gagn­semi breska bólu­efnisins. Stjórn­völd hefðu átt að berjast fyrir því með kjafti og klóm að tryggja nægt bólu­efni fyrir löngu, en af ein­hverjum á­stæðum virðist þeim ráð­herrum sem fóru með málið hafa skort þar vilja eða getu, eða hvoru tveggja.

Ó­trú­legt er að ríkis­stjórn, þar sem flokkarnir áttu fátt sam­eigin­legt annað en and­stöðu við ESB, skyldi á­kveða að hengja sig al­farið á mis­heppnaða bólu­setningar­á­ætlun sam­bandsins. Hvernig í ó­sköpunum var komist að því að það væri þjóðinni fyrir bestu, og á sama tíma að ekkert Plan B var fyrir hendi? Bólu­setningar­klúður stjórn­valda, sem er einkum á á­byrgð heil­brigðis­ráð­herra, eru af­glöp af áður ó­þekktri stærðar­gráðu.