Við lifum tíma umróts og átaka á milli frjálsræðis og lýðræðis annars vegar og afturhalds og einræðis hins vegar. Við lifum tíma klofnings innan þjóðríkja – og þess utan hefur myndast vík á milli gamalla bandalagsþjóða sem lengst af hafa deilt sömu gildum.

Þetta er ógnin sem blasir við í Ameríku og Evrópu og raunar víðar um álfur þar sem reynt hefur verið að festa lýðræði og mannréttindi í sessi. Bakslagið er augljóst.

Í Bandaríkjunum hefur myndast hyldjúp gjá á milli kristilegs afturhalds og frjálslyndra lýðræðisafla – og heiti þjóðarinnar hefur breyst í þversögn. Og Sundurríkin eru líklega komin til að vera, slík er illskan á milli þessara ólíku afla sem horfa á réttindi kvenna, þeldökkra og hinsegin fólks frá gerólíkum öldum.

Í Bretlandi er þjóðin enn þá klofin á milli unga fólksins sem þráir alþjóðasamvinnu og gamla fólksins sem neitar að horfast í augu við þá sannreynd að heimsveldið má muna sinn fífil fegurri – og er ekki lengur sjálfbært. Það situr eftir í beiskju sinni, vafið inn í Brexit-lygavefinn og getur sig hvergi hrært.

Í Frakklandi er þjóðin líka að skiptast í tvennt á milli þeirra sem una við núverandi valdhafa og þeirra sem finna þeim allt til foráttu. Uppgangur hægri hatursflokka, sem vefja andmannúðlega stefnu sína inn í bómull, ætlar engan enda að taka í landinu.

Í miðju Evrópu kallast svo sömu ólíku öflin á, eða öllu heldur, úthúða hvert öðru, en þar leika leifarnar af gömlu heimsveldunum á reiðiskjálfi – og það er raunar með ólíkindum að Pólland og Ungverjaland heyri til sama lýðræðisbandalaginu og Þýskaland, Danmörk, Svíþjóð og Finnland. Það er langur vegur frá því að fyrrnefndu löndin og þau síðarnefndu deili sömu gildum.

Í umsóknarferli Finna og Svía vegna væntanlegrar aðildar að NATO eru menn svo enn og aftur minntir á að innan álfunnar eru einræðisríki enn þá við lýði. Tyrkland er af öðru sauðahúsi en flest Evrópulönd hvað lýðréttindi varðar – og Rússland er að grafa sína gröf sem partur af álfunni, en stríðsglæpir þeirra á hendur frændum og nágrönnum í vestri verða seint eða ekki fyrirgefnir.

Bandaríkin og Evrópa loga í átökum. Þjóðir eru þverklofnar. Innan gamla heimsins vex hatur og krafa um að hverfa af braut lýðréttinda og mannúðar. Þetta er staðan.