Ég er klappstýra bandarísku þjóðarinnar, sagði Donald Trump í framhaldi af því að í einu af fjölmörgum nýlegum samtölum sínum við fjölmiðlamanninn Bob Woodward hafði hann gert lítið úr þeirri vá sem að Bandaríkjunum steðjaði af heimsfaraldri. Það lá að. Mörgum var þetta hlutverk forsetans ljóst áður en hann lýsti því sjálfur svo.

Þetta samtal átti sér stað í mars og af því sem spilað hefur verið af upptökum samtalanna er ljóst að forsetinn gerði sér grein fyrir alvarleika máls. „Hún er bráðdrepandi,“ sagði Trump í öðru samtali við Woodward. Aðeins þyrfti að draga andann til að smitast.

Örfáum dögum eftir þetta samtal sagði forsetinn í fjölmiðlum vestanhafs að allt væri með felldu, aðeins ellefu tilvik hefðu greinst og þeir myndu jafna sig fljótt. Allt væri þar undir styrkri stjórn.

En hafi hann vísvitandi tónað niður þá hættu sem að steðjaði og hafi hann gert sér grein fyrir hvað var í aðsigi er ljóst að hann brást þjóð sinni gersamlega í málinu. Aukinheldur blasir við að gagnrýni hans á Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina er falskur tónn. Þar sagði hann að viðbrögð stofnunarinnar væru verulega ámælisverð og allt of seint hefði verið varað við alvarleika faraldursins í upphafi.

Trump bætti svo um betur og beitti vopninu sem honum er tamast, peningum, og skrúfaði fyrir fjárveitingar til stofnunarinnar. Þó heimsfaraldurinn sé áberandi meðal verkefna þeirrar stofnunar er listinn af bráðáríðandi verkefnum langur. Sum eru þau bundin við tiltekna heimshluta og önnur varða heiminn allan. Þó forsetanum sé í sjálfsvald sett hvert peningar Bandaríkjamanna renna, þarf að hafa mikilvægi stofnunarinnar í heilsufari jarðarbúa í huga.

Markverðast er þó að Bandaríkin hafa um langa hríð talið sig lögreglu heimsins og hafa ekki dregið af sér við að koma á röð og reglu, að eigin mati, nær og fjær.

Burtséð frá því hver situr í stóli forseta hverju sinni á bandaríska þjóðin allt undir því að traust ríki í samskiptum hans við þjóð sína. Að draga úr alvarleika aðsteðjandi ógnar og jafnvel tala sér þvert um geð í því sambandi, er ekki fallið til að styrkja það traust. Öðru nær.

Einhverjir munu halda því fram að ákvörðun Woodwards um að birta samtölin sé af pólitískum toga. Sannarlega styttist nú mjög í forsetakosningar þar vestra og um bráðeldfimt mál að ræða, þar sem ekkert á síðari tímum hefur gert Bandaríkjunum meiri skráveifu en faraldurinn.

En forsetinn verður sjálfur að bera hallann af því að hafa farið svona að ráði sínu. Og Woodward er vorkunn að þurfa að burðast með upplýsingar sem þessar án þess að aðhafast. Hálft ár er frá því samtalið átti sér stað og það er langur tími. Um þetta verður deilt og ekki ólíklegt að sú deila verði meira áberandi en það sem á milli þeirra Trumps og Woodwards fór. Það skiptir ekki máli, heldur sú staðreynd að forsetinn laug að þjóð sinni og heiminum öllum.

Klappstýran í Hvíta húsinu ætti að finna sér eitthvað annað að gera.