Ný­leg bar­átta ber­brjósta konu sem var vísað upp úr bað­lóni sökum klæð­leysis vakti mikla at­hygli og um­ræður. Ein­hverjir töldu að einka­fyrir­tæki hlyti nú að vera frjálst að setja reglur um klæða­burð. Aðrir töldu að um grófa mis­munun kynjanna væri að ræða. Lónið bar því við að reglur um klæða­burð væru af til­lits­semi, þau væru að „taka á móti gestum alls staðar að“. Auð­vitað viður­kennum við öll að rekstrar­aðilar og eig­endur geta sett gestum sínum og við­skipta­vinum á­kveðin skil­yrði, hvort sem það lýtur að klæða­burði eða öðru. Til þess hafa þeir fullan rétt, svo lengi sem fólki er ekki mis­munað þannig að fari í bága við lög.

Hver sem af­staða okkar er til þessa, er það í það minnsta frá­bært að hér séum við að taka svona slag í bar­áttu fyrir jafn­rétti og gegn mis­munun. Jafn­rétti mælist enda ár eftir ár mest í heimi hér á landi. Á sama tíma berjast fjöl­margar konur um allan heim fyrir því sem okkur þykja orðið sjálf­sögð réttindi, s.s. réttinum til að keyra og mennta sig. Á Ís­landi er staða mann­réttinda góð í al­þjóð­legum saman­burði. Eigum við langri og strangri bar­áttu þeirra sem ruddu brautina fyrir okkur það að þakka.

Við erum flest með­vituð um jafn­réttis­bar­áttuna og bar­áttuna gegn mis­munun, enda stendur hún yfir og er hvergi nærri lokið. Og þegar ber­brjósta konu er vísað af bað­stað, þegar trúar­leið­togi neitar að taka í hönd frétta­konu og hefur uppi haturs­full um­mæli í garð sam­kyn­hneigðra eða merki um gyðinga­hatur er fest upp í glugga hjóla­verslunar, vekur það harða and­stöðu. Allir sem hér búa og hingað koma fá sömu skila­boð og lúta sömu kröfum. Það er hvorki gest­risni né um­burðar­lyndi fólgið í því að gefa af­slátt af þeim kröfum um jafn­rétti og mann­virðingu sem við gerum alla jafnan.

Önnur mikil­væg mann­réttindi eins og til að mynda tjáningar-, at­hafna- og ferða­frelsi höfum við einnig öðlast fyrir til­stilli sumpart blóðugrar bar­áttu þeirra sem á undan komu. Sú bar­átta er að ein­hverju leyti eldri og farið að fenna yfir spor braut­ryðj­endanna. Þá er hætt við að við verðum væru­kær. Við erum aldrei í eins mikilli hættu á að glata frelsinu og þegar við tökum því sem sjálf­sögðu. Fjöl­miðla­frelsi er sömu­leiðis burðar­stoð í lýð­ræðis­ríkjum og hlut­verk fjöl­miðla gríðar­lega mikil­vægt.

Það er mikil­vægt að fjöl­miðla­menn standi undir þessari á­byrgð með gagn­rýnni frétta­mennsku og upp­lýsinga­miðlun og hlut­verk þeirra tak­markist ekki við að miðla á­fram yfir­lýsingum og stað­hæfingum stjórn­valda. Þetta er sér­stak­lega mikil­vægt á tímum upp­lýsinga­ó­reiðu og út­breidds og við­varandi hræðslu­á­stands. Þegar gengið er mjög nærri borgara­legum réttindum og frelsi fólks yfir lengri tíma er ekki að­eins mikil­vægt, heldur nauð­syn­legt, að stöðug og opin um­ræða fari fram um nauð­syn skerðinga. Fyrir þeim þurfa að vera vel í­grundaðar og veiga­miklar á­stæður og mikil­vægt að öll sjónar­mið komi fram. Ekki að­eins rök þeirra sem telja sig sjálfir nógu mikla sér­fræðinga. Því vekja til­raunir til þöggunar sem beinast jafn­vel að æðstu hand­höfum fram­kvæmda­valds óhug. En ef við höfum eitt­hvað lært af sögunni þá er það það að stjórn­völd eru treg til að skila valdi sem þau hafa tekið sér og við þurfum að veita þeim stöðugt að­hald. Það er al­manna­heill.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður, aðstoðarmaður utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og skipar annað sæti á lista XD í Rvk-N fyrir komandi Alþingiskosningar