Hlutverk skálda í Forn- Grikklandi var ekki aðeins að skemmta lýðnum heldur áttu þau líka að skerpa á lýðræðisvitund áheyrenda og kenna þeim að horfa á veröldina út frá sjónarhóli náungans. Gríska orðið fyrir leikskáld var meira að segja síðar notað yfir kennara enda mátti læra af verkum skáldanna hvert dramb, hroki, græðgi og eigingirni gætu leitt fólk á lífsleiðinni. Ég efast um að skáldin hafi slakað á þessum kröfum en einhverra hluta vegna finnst mér kjósendur vera í tómri tjöru þegar til lýðræðislegra kasta kemur, kannski til að getað síðar kvartað yfir þeim ósköpum sem þeir kusu yfir sig.

Hér á Spáni, til dæmis, eru tveir hefðbundnir hægri flokkar: Annar er umvafinn spillingu sem allir eru orðnir hundleiðir á en hinn reynir að sporna gegn henni. Hvor flokkurinn haldið þið að sé að lognast út af? Annað dæmi, í upphafi COVID sendu yfirvöld boð á elliheimili Madrídarhéraðs um að vera ekki að hafa fyrir því að senda sýkta öldunga á bráðamóttöku þar sem álagið þar væri nóg fyrir. Eins og gefur að skilja réði þetta örlögum ófárra íbúa þessara heimila. Skilaboðin láku í fjölmiðla og krafan um að æðstu yfirmenn, eins og forseti héraðsins, Isabel Ayuso, segðu af sér fór fjöllum hærra um stund. Því var þó ekki að heilsa en ef kjósendur eru jafn smekklausir og útgönguspár vilja meina þá mun Isabel hins vegar eiga yfir höfði sér mikil veisluhöld í Madríd í kvöld til að fagna stórkostlegum kosningasigri. Á meðan bið ég Ísland um að hlúa að skáldum sínum.