Ólíkt þingkosningum virðast kjósendur oftar flykkja sér um tiltekinn einstakling eða eitt afmarkað málefni í kosningum til sveitarstjórna.
Persónufylgi frambjóðenda skemmir vissulega ekki fyrir í þingkosningum en það vinnur sjaldnast kosningar á sama hátt og á sveitarstjórnarstiginu. Skýrasta dæmið um þetta er líklega Jón Gnarr. Í yfirstandandi kosningabaráttu má einnig benda á Guðmund Árna Stefánsson sem virðist á góðri leið með að breyta Hafnarfirði í kratabæ á ný eftir langa valdatíð íhaldsins.
Hitt sem einkennir gjarnan sveitarstjórnarkosningar er að eitt tiltekið stórmál heltekur hreinlega umræðuna. Frjálsir kettir, flugvellir, stóriðja, borgarlína, svifbrýr, neðansjávargöng og uppblásin íþróttahús. Það hefur verið mál manna í aðdraganda komandi kosninga að baráttan um borgina sé venju fremur daufleg og tíðindalítil. Ekkert tiltekið stórmál hefur í raun náð sérstöku flugi og stefnumál flokkanna virðast heilt yfir ekki ná til kjósenda. Kosningabaráttan snýst þannig í raun og veru ekki um neitt sem hönd er á festandi.
Þar sem málefnin skortir virðast borgarbúar hafa fátt annað að tala um en vaxandi örvæntingu Sjálfstæðisflokksins, sem hefur hvorki náð vopnum sínum með mannskap né málefnunum. Leiðtogi flokksins virðist hafa takmarkað persónufylgi og miðað við gengi meirihlutaflokkanna í könnunum telja kjósendur borgina virka nú þegar.
Þannig virðast þeir flokkar sem mynda núverandi meirihluta helst njóta slagorðs Sjálfstæðisflokksins, Reykjavík sem virkar. Þótt málefnaskrár meirihlutaflokkanna hafi engan áhuga vakið hjá kjósendum hafa þeir þrátt fyrir allt meira að bjóða en aðrir flokkar: Þeir leggja verk sín í dóm kjósenda á kjördag.
Framsóknarflokkurinn þarf heldur engin málefni til að ná árangri að þessu sinni. Stefna Framsóknarflokksins í Reykjavík er Einar Þorsteinsson. Samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins nýtur hann jafnmikils stuðnings sem næsti borgarstjóri og Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins.
Samkvæmt könnunum ber sitjandi borgarstjóri höfuð og herðar yfir aðrar persónur í þeirri vinsældakosningu sem baráttan í Reykjavík er að þróast út í, enda sýnir Samfylkingin fátt annað en hann. Dagur nýtur þess að vera óumdeildur leiðtogi í eigin flokki og njóta trausts í röðum samstarfsflokkanna. Nú eru þrír dagar til stefnu fyrir leiðtogana til að heilla borgarbúa. Það verður kjörþokki þeirra sem ræður á kjördag.