Kjördagur er runninn upp. Einn sá mikilvægasti á seinni tímum, að sagt er. En samt sem áður er sannreyndin sú að allar kosningar í landinu eru okkur þær mikilvægustu. Kosningar eru nefnilega spegill þjóðarinnar. Þær vega og meta stefnur og strauma í samfélaginu, sýna okkur í raun og sann hvert við viljum halda og hvernig við viljum komast þangað.

Kosningar eru líka hátíð lýðræðisins, fögnuður þess að búa í samfélagi sem trúir á mannréttindi og frelsi – og vill umfram allt að fólkið ráði. Og þótt lýðræðið geti á stundum verið ófullkomið, að ekki sé talað um óráðið og misvísandi, fyrir nú utan hvað það er oft og tíðum málamiðlanalega marflatt, er það líklega sanngjarnasta leiðin til að leggja línurnar í regluverki þjóðarinnar.

En það er á svona dögum, kjördögum, sem mikilvægt er að rýna í inntak lýðræðisins og hugsa um raunverulega merkingu þessa orðs. Kemur þar tvennt til. Fólkið kýs og flokkarnir finna um leið hvort þeir eiga erindi í þjóðmálaumræðunni, en svo er hitt – og það er umhugsunarefni:

Fyrst við viljum búa í lýðræðissamfélagi þar sem margvíslegar skoðanir eiga að fá að njóta sín, verðum við að gera ráð fyrir þeim öllum, altso, ólíkum skoðunum.Lýðræðisandinn er fólginn í því að virða skoðanir annarra enda þótt maður kunni að vera mótfallinn þeim.

Lýðræðisástin er öðru fremur þeirrar gerðar að elska skoðanaskipti – og vilja framar öllu að kröftugt og málefnalegt samtal fari fram í samfélaginu.

Þar er lykil lýðræðisins að finna, þann hinn sama og opnar samfélagið og lýkur upp öllum gáttum þess. Lýðræðið á nefnilega að lofta út – og það á að sýna okkur samfélagið eins og það er í raun og veru á breiddina, einmitt hvernig fjölbreytni þess er alltaf mikilvægari en einsleitnin.

Þess vegna er mikilvægt að á löggjafarsamkundu þjóðarinnar veljist fólk af öllu tagi á þessum kjördegi sem nú er runninn upp, fólk á öllum aldri, af öllum kynjum, af hvaða menntun sem er, búsett hvarvetna á landinu – og með hvaða skoðanir sem er, skrýtnar líka og óvenjulegar, innan um hefðbundnar skoðanir og vanalegar.Og um leið og við virðum skoðanir hvers annars eigum við líka að virða það fólk sem er reiðubúið að leggja þinghaldið á sig. Það á það skilið.