Í ár eru þrír ára­tugir frá upp­hafi um­sáturs­ins um Sara­jevó, lengstu her­kvíar í sögu nú­tíma hernaðar. Í þrjú ár, tíu mánuði, þrjár vikur og þrjá daga um­kringdu stjórnar­her Júgó­slavíu og serb­neskar víga­sveitir höfuð­borg Bosníu-Hersegóvínu. Í tæp fjögur ár bjuggu í­búar borgarinnar við mat­væla- og lyfja­skort, raf­magns­leysi, sprengju­regn og kúlna­hríð leyni­skytta sem földu sig í hæðunum um­hverfis borgina og eirðu engum; ekki konum, korna­börnum, gamal­mennum, sjúkra­flutninga­fólki eða hjálpar­starfs­mönnum. Fjór­tán þúsund borgar­búar létu lífið.

Í vikunni mátti lesa á­huga­vert við­tal í Frétta­blaðinu við rit­höfundinn Val Gunnars­son sem staddur er í Kænu­garði í Úkraínu. Hann sagði lífið í höfuð­borg hins stríðs­hrjáða lands vera orðið undar­lega venju­legt. „Mann­skepnan hefur ó­trú­lega hæfi­leika til að að­lagast að­stæðum og hér er voða lítið sýni­legt um átök,“ sagði Valur.

Tíu árum eftir að um­sátrinu um Sara­jevó lauk heim­sótti ég borgina. Eins og við var að búast blöstu ör á­taka enn við. Í veggjum húsanna voru holur eftir sprengi­kúlur; stór svæði innan borgarinnar voru lokuð af vegna hættu á jarð­sprengjum. Við­horf í­búanna var þó öllu ó­væntara.

Á kaffi­húsi í mið­borg Sara­jevó kynntist ég ungum heima­manni. Hann hafði verið þrettán ára þegar um­sátrið hófst. Var hann ekki reiður yfir að stríðið hefði svipt hann ung­lings­árunum? Hann brosti kurteis­lega: „Það voru alveg partí.“ Á mig kom fát. Ég hafði talið al­menning í stríðs­hrjáðum löndum setja lífið á ís meðan þess var beðið að hryllingurinn gengi yfir. En þvert á móti. Á tímum um­sátursins í Sara­jevó við­héldu í­búar dag­legu lífi af ó­trú­legri þraut­seigju. Fólk fór til vinnu þótt engin laun væru greidd og ferða­lagið gæti kostað það lífið. Reynt var að halda uppi skóla­starfi í rústum bygginga. Seint á kvöldin þutu krakkar milli húsa til að heim­sækja vini og fara í partí því leyni­skytturnar áttu erfiðara með að koma auga á þá í skjóli myrkurs.

Stríðið í Úkraínu varpar nú ljósi á stað­festu mann­eskjunnar til að standa vörð um hvers­dags­leikann. Við öfga­fullar að­stæður sést hversu stór manns­sálin er. En öfgar eru líka kjör­að­stæður smá­sála.

Við­talið við Val Gunnars­son í Frétta­blaðinu olli hörðum við­brögðum rúss­neska sendi­ráðsins í Reykja­vík. Var á­stæðan ljós­mynd sem fylgdi við­talinu af rúss­neska fánanum sem hafði öðlast nýjan til­gang sem dyra­motta á ó­til­greindum stað í Úkraínu. Sendi­ráðið mót­mælti mynd­birtingunni og sakaði Frétta­blaðið um að gerast brot­legt við 95. grein ís­lenskra hegningar­laga þar sem m.a. er kveðið á um að allt að sex ára fangelsi liggi við því að smána fána er­lends ríkis.

„Tíminn er eins og vatnið...“ Á næsta ári verða liðin níu­tíu ár frá því að ljóð­skáldið Steinn Steinarr skar niður haka­kross­fána á Siglu­firði og reif hann. Var hann fundinn sekur um að ó­virða fána er­lends ríkis og dæmdur í þriggja mánaða fangelsi.

Þótt tíminn hafi leitt í ljós fá­rán­leika dómsins og ó­hæfu laga­á­kvæðisins stendur það enn nánast ó­breytt.

Í sömu and­rá og al­menningur í Úkraínu berst af æðru­leysi fyrir hvers­dags­lífi sínu um­gangast starfs­menn rúss­neska sendi­ráðsins grunn­gildi gesta­þjóðar sinnar af hvers­dags­legri van­virðingu. Af ein­stökum tví­skinnungi nýtir sendi­ráðið sér lysti­semdir tjáningar­frelsisins og reynir að þagga niður í frjálsum fjöl­miðli í lýð­ræðis­ríki. Á Face­book-síðu sendi­ráðsins má lesa ógnandi á­minningu til rit­stjórnar Frétta­blaðsins um til­vist 95. greinar hegningar­laganna.

Fram­ganga rúss­neska sendi­ráðsins sýnir að bróður­partur 95. greinar ís­lenskra hegningar­laga er ekki að­eins hlægi­leg tíma­skekkja heldur einnig hættu­legt kúgunar­tól. Það ætti að vera for­gangs­verk­efni stjórn­valda að fella á­kvæðið úr gildi.