Í tímans rás hafa stjórnmálaflokkar á Íslandi fæðzt og dáið eins og lífsins lög gera ráð fyrir. Þeir létust úr ýmiss konar uppdráttarsýki, en enginn þeirra úr klámi fyrr en nú að Miðflokkur lagðist í rúmið og er að deyja úr klámi. Birgir Þórarinsson miðflokksmaður sté ekki inn í klaustrið góða hér um árið, en tók um daginn snögglega til fótanna rakleitt inn í viðhafnarstofur Sjálfstæðisflokksins. Vilhjálmur Bjarnason hefur ritað fróðlega grein um loftræstikerfið þar. Í þeim stofum var Birgi fagnað samstundis eins og bezta bróður, enda kom hann færandi hendi: hafði meðferðis sjálfa „skynsemishyggjuna“, bæði hina almennu og hina „róttæku skynsemishyggju“; einhvers staðar verður að koma henni vel fyrir nú þegar Miðflokkurinn er í andarslitrunum. Birgir ályktaði með réttu að hvergi fyndist eðlilegra rými fyrir „skynsemishyggjuna“ í heild en í húsum Sjálfstæðisflokksins.

Birgir Þórarinsson er guðfræðingur að mennt og mun ekki vera klámhundur í frístundum. Hann reisti guði til dýrðar og sjálfum sér til fremdar kirkju á bæ sínum, Minna-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd. Hún var vígð síðastliðið sumar. En nokkru áður hafði Birgir hraðað því að settur yrði kross á kirkjuna vegna þess að þá skulfu fjöll og grundir suðvestanlands. Haft var eftir honum í Morgunblaðinu 11. marz að í þeim krossi fælist „ákall og bæn til Drottins um að hemja náttúruöflin. Hér skelfur og við höfum ekki náð heilum svefni lengi“. Einnig tók hann fram að Vatnsleysuströnd gæti verið í hættu, kæmi til goss á Reykjanesskaga; sama ætti við um „skák á hraununum við Keili“ sem tilheyrði ábúðarjörð hans.

Þarna talar maður sem er ágætlega að sér í „skynsemishyggjunni“: náttúruöfl eru af hinu góða, ef þau gagnast mannskepnunni eða láta hana að minnsta kosti í friði, að öðrum kosti eru þau af hinu illa. Þessi grein „skynsemishyggjunnar“ teygir anga sína aftur til eingyðistrúarmanna í forneskju sem hugkvæmdist það snjallræði að búa til satan, því einhver hlaut að hafa spillt sköpunarverkinu, mönnum og náttúru, frá því er guði almáttugum þótti það allt saman harla gott í öndverðu. Ekkert vit var í því að láta alfullkominn guð bera ábyrgð á sköpunarverki sem var gallað. Meðal þess sem satan hafði á valdi sínu var eldurinn í iðrum jarðar.

Þegar Fjölnismenn börðust fyrir því að alþing Íslendinga hið nýja yrði háð á völlunum við Öxará orti Jónas Hallgrímsson tvö kvæði til lofs Þingvöllum: Fjallið Skjaldbreiður og Leiðarljóð til Jóns Sigurðssonar. Af fyrra kvæðinu má ljóst vera að Jónas hefði aldrei reist kross í móti náttúruöflum, svo sem landskjálftum og jarðeldum. Þingstaðurinn forni bar því vitni að guð hafði jarðeld í þjónustu sinni þegar hann vann að smíði hans, „gat ei nema guð og eldur/gjört svo dýrðlegt furðuverk“. Þetta stríðir vitanlega gegn hinum „kristnu gildum“ Birgis Þórarinssonar og „skynsemishyggjunni“ yfirleitt. En svona var nú Jónas skáld Hallgrímsson, hann trúði á skapara (nefndi hann gjarnan „föður“) sem var ekki klofinn í tvennt eftir geðþótta manna, í algóðan og almáttugan guð á annan bóginn, á hinn bóginn í satan.

Allir viðurkenna að það er mjög sárt hve hörð náttúruöflin eru okkur mönnum oft og einatt. En væri þó ekki skynsamlegt að taka undir með Sveinbirni Egilssyni sem segir í kvæði að blítt og strítt fari saman í tilverunni að vilja þess sem hana skóp?

Eftir að Birgir Þórarinsson reisti krossinn á kirkju sinni kom upp jarðeldur í Geldingadölum. Sem betur fer hefur hann ekki hingað til þurft að hlaupa undan þeim satanísku kröftum sem þá losnuðu úr læðingi. En nú er greinilegt orðið að hann hefði einnig átt að beina kirkjukrossi þessum gegn Miðflokknum, því ekki dylur hann lengur að þar væri á reiki „margur óhreinn andinn“.