Þáttaröðin Svona fólk hefur verið í umræðunni að undanförnu. Mikil vinna hefur verið lögð í gerð þáttanna og eiga framleiðendur hennar þakkir skildar fyrir að halda þessari sögu til haga. Við sem munum eitthvað aftur í öldina sem leið höfum fylgst með þeirri gífurlegu hugarfarsbreytingu sem orðið hefur í garð samkynhneigðra, tvíkynhneigðra, transfólks, intersex og fleiri.

Í einum þáttanna kom fram að andstaða kirkjunnar hefði verið hatrömm gagnvart hjónavígslu samkynhneigðra og leyfi þeirra til ættleiðinga.

Þarna var vissulega farið með réttar sögulegar staðreyndir, en sleppt að minnast á, að innan kirkjunnar stóðu mjög margir og sterkir aðilar, flestir prestar, nánast í stríði við kirkjuleg yfirvöld í baráttu sinni fyrir réttindum samkynhneigðra.

Í þeirri baráttu var hart tekist á og að baki henni var langur aðdragandi, samtal og guðfræðileg vinna. Við vorum kölluð „fjörutíumenningarnir“ því upphaflega vorum við 40 prestar sem skoruðum á prestastefnu, sem haldin var á Húsavík árið 2007 að samþykkja hjónavígslu samkynhneigðra og leggja það fyrir kirkjuþing. Reyndar urðum við miklu fleiri þegar á reyndi.

Barátta okkar hélt áfram allt þar til kirkjuþing loks samþykkti hjónavígslu samkynhneigðra árið 2010.

Margir spáðu klofningi innan kirkjunnar. Sá spádómur rættist aldrei.

Kirkjunnar þjónar hafa síðan gefið saman samkynja pör án nokkurra vandkvæða. Var íslenska þjóðkirkjan fyrsta kirkjan á Norðurlöndum til að ganga þetta skref til fulls. Árið 2015 var síðan lögð fyrir kirkjuþing tillaga um að presti væri ekki leyfilegt að neita því að gefa saman samkynja hjón á grundvelli þess sem kallað hafði verið „samviskufrelsi“. Er íslenska þjóðkirkjan eina kirkjan á Norðurlöndum og ef til vill eina kirkjan í heiminum öllum sem hefur gengið svo langt í að standa vörð um réttindi samkynhneigðra.

Árið 2015 tók djáknavígslu fyrsta konan sem er í hjónabandi með manneskju af sama kyni. Í ágúst árið 2017 var fyrsti presturinn vígður sem er í hjónabandi með manneskju af sama kyni. Reyndar eru djákninn og presturinn í þessu tilfelli hjón. Þær tvær eru brautryðjendur.

Í Kastljósþætti sem sýndur var á RÚV í vikunni baðst biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, afsökunar á þeim sárindum sem kirkjan olli samkynhneigðum á árum áður og í kjölfarið tjáði formaður Samtakanna ’78 sig um það að full sátt væri gagnvart kirkjunni eftir þessa afsökunarbeiðni.

Mannréttindi og mannhelgi er grundvallarþáttur í lýðfrjálsu samfélagi. Við, ásamt fjölda annarra presta, guðfræðinga, djákna og kirkjunnar fólks, erum stolt af því að hafa tekið þátt í mannréttindabaráttu samkynhneigðra innan þjóðkirkjunnar og unnið á endanum fullnaðarsigur. Í dag er þjóðkirkjan stoltur bakhjarl og samverkamaður Samtakanna ’78. Þáttur þjóðkirkjunnar endurspeglar fjölbreytileika hennar sem stærstu félagasamtaka þjóðarinnar. Það er eðlilegt og viðbúið að ekki séu allir á sama máli í svo fjölmennu samfélagi.

Við leggjum til að haldið verði málþing í upphafi nýs árs þar sem sögu þessari verði gerð skil. Samband þjóðkirkjunnar og Samtakanna ’78 verði formgert, í sátt við fortíðina – samferða inn í framtíðina. Í ljósi sögunnar skiptir máli að halda öllum staðreyndum málsins til haga. Þrátt fyrir tafir á málinu urðu lyktir þær að þau sem börðust fyrir fullum réttindum samkynhneigðra höfðu betur. Því ber að fagna en um leið þurfum við að halda vöku okkar.