Hinn skarpi en um leið óútreiknanlegi Kári Stefánsson hefur einstaka hæfileika til að koma umhverfi sínu í uppnám. Þar á meðal stjórnvöldum sem óska þess sjálfsagt að hann væri hógværari, stilltari og skoðanalausari en hann er og léti þau í friði. Slíkt er hins vegar ekki í karakter Kára Stefánssonar. Hann fer ætíð eigin leiðir og lætur ekki að stjórn. Um leið býr hann yfir þeim einstaklega frumlega hæfileika að geta hundskammað sjálfan sig opinberlega fyrir eitthvað sem hann sagði nokkrum dögum áður. Mikið væri hressandi tilbreyting að sjá fremur stofnanalega ráðamenn þjóðarinnar leika þetta eftir, svona einstaka sinnum. Slík opinber sjálfsskoðun myndi óneitanlega gera þá að áhugaverðari karakterum.

Kári gagnrýndi nýlega frest sem ríkisstjórnin tók sér vegna hugmyndar hans um stofnun faraldsfræðistofnunar sem hefði það hlutverk að takast á við COVID-19. Kári hafði fengið það svar að slíkt tæki dágóðan tíma og verkefnisstjóri yrði að skoða tillöguna – og á víst að fá að dunda sér við það alveg fram í september. Kári sagði í viðtali við RÚV: „Það vill svo til að við erum að fara í gegnum faraldur sem er þess eðlis að við höfum séð ástæðu til þess að svipta fólk grundvallarmannréttindum til þess að takast á við faraldurinn. Þegar þú ert á slíkum stað þá hreyfir þú þig ekki hægt.“

Ekki er annað hægt en að taka undir með Kára. Á tímum eins og þessum þarf að bregðast hratt við og af öryggi. Af einhverjum ástæðum virðist það ekki vera í boði. Vísast er mikið álag á ríkisstjórn Íslands, sem hefur í mörg horn að líta, en þegar svo er háttað þarf einmitt að forgangsraða. Þar hljóta aðgerðir vegna COVID að vera í forgangi. Það er ekki í boði að gera ekki neitt, í von um að vandamálið hverfi, heldur þarf einmitt að vinna hratt. Vitað er að í íslensku þjóðfélagi er allt fullt af kerfiskörlum og -kerlingum, sem hafa unun af að sitja í nefndum og taka sér dágóðan tíma til að ræða málin fram og aftur. Ríkisstjórnin á að banda frá sér kerfisfólkinu sem vinnur á hraða snigilsins og fá í staðinn til liðsinnis fólk sem getur unnið hratt og vel og leggur fram raunhæf úrræði sem ekki tekur óratíma að koma í framkvæmd.

Í fyrrnefndu viðtali á RÚV nefndi Kári að í baráttunni við COVID hefði fólk verið svipt grundvallarmannréttindum sínum. Þetta hefur lítið verið rætt á síðustu vikum og mánuðum. Einhver hefði nú talið að stjórnmálamönnum bæri einmitt að halda vöku sinni, þegar kemur að því að vernda mannréttindi fólks. Vissulega hefur almenningur tekið því með jafnaðargeði að frelsið sé takmarkað á farsóttartímum, en slíkt má ekki festa sig í sessi og verða hið viðtekna. Þegar ástandið verður orðið nokkurn veginn eðlilegt á ný, má alls ekki fara þannig að almenningur verði áfram sviptur mannréttindum vegna þess að hugsanlega geti eitthvað slæmt gerst í náinni framtíð.

Lífið er einfaldlega þannig að því fylgir áhætta. Að afneita því er að afneita raunveruleikanum.