Ýmsir af æðstu stjórnendum embættismannakerfisins berjast gegn kerfisbreytingum sem ráðherra og Alþingi vilja koma í gegn. Rétt eins og þeir séu þátttakendur í pólitík en ekki ráðnir til að framfylgja stefnu sem mótuð var á vettvangi stjórnmála.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hyggst heimila smærri brugghúsum að selja bjór þar sem hann er framleiddur. Það er eðlilegt að þau fái að selja sína vöru. Brugghús, til dæmis á landsbyggðinni, munu njóta góðs af beinni sölu til ferðamanna. Á brattann er að sækja í rekstri flestra þessara frumkvöðlafyrirtækja, markaðshlutdeild handverksbrugghúsa er lítil og eðlilegt að leita leiða til að létta þeim lífið.

Ívar J. Arndal, forstjóri Vínbúðarinnar, gerðist holdgervingur varðstöðu kerfisins þegar hann sagði að þessi sjálfsagða lagabreyting yrði þess valdandi að „höggvið [yrði] stórt skarð í rót­gróna einka­sölu ís­lenska rík­is­ins á áfengi“. Áhugaverð nálgun; eflaust þykir mörgum miður að missa einokunarstöðu en gæta þess að ræða það ekki opinberlega.

Forstjórinn virðist horfa fram hjá því að Vínbúðinni er gert af Alþingi að veita tiltekna þjónustu. Umboð Ívars nær ekki lengra en það. Ívar ritaði 25 blaðsíður gegn frumvarpinu. Vonandi voru þær skrifaðar utan vinnutíma.

Því miður er þetta ekki einsdæmi. Stjórnmálamenn mæta iðulega andstöðu þegar draga á úr völdum embættismanna. Það kristallast ágætlega í þeirri andstöðu sem sprettur fram þegar færa á verkefni á milli ráðuneyta. Stundum er barist fyrir opnum tjöldum gegn breytingunum, eins og í tilviki Vínbúðarinnar.

Stjórnendur Samkeppniseftirlitsins gengu skrefinu lengra og borguðu fyrir auglýsingar á samfélagsmiðlum þar sem breytingum á samkeppnislögum var mótmælt. Annað þekkt mál er þegar starfsmenn utanríkisráðuneytisins lögðust gegn því að aukinn yrði sveigjanleiki við skipun sendiherra.

Það er mikilvægt að þeir stjórnmálamenn sem fá lýðræðislegt umboð til að koma til leiðar ýmsum breytingum á kerfinu geti hrint þeim í framkvæmd. Embættismenn þurfa að vera auðmjúkir fyrir þeim breytingum og vera reiðubúnir til að leggja hönd á plóg. Til þess voru þeir ráðnir. Hugnist þeim það ekki væri eðlilegt að reyna fyrir sér á öðrum starfsvettvangi.