Umræðan um umhverfismál hefur aldrei verið meiri og fólk verður sífellt meðvitaðra um mikilvægi þess að við bregðumst öll við og gerum betur. Árið 2017 voru 5% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda okkar Íslendinga frá úrgangi á meðan hún var um 1-3% hjá þjóðunum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við. Frá því að mælingar hófust um 1990 hefur losun vegna úrgangs aukist á Íslandi um rúm 30% á sama tíma og hún hefur dregist saman um 50% í löndum Evrópusambandsins. Við erum þar að auki í toppsætunum yfir myndun úrgangs með rúm 660 kg af heimilisúrgangi á mann á ári og endurnýtingarhlutfallið er einungis 33%.

Lítill hvati

Hvað veldur því að svona vel menntuð og fjárhagslega stöndug þjóð, sem er sífellt að verða meðvitaðri um umhverfismál, stendur sig svona illa í úrgangsmálum? Svarið er einfalt. Það er of auðvelt að henda rusli. Við fáum tunnu heim eða á vinnustaðinn. „Gjörðu svo vel, hér er tunna. Settu í hana allt þitt rusl, við sækjum hana svo og tæmum reglulega!“ Þú þarft ekkert að hugsa um þetta frekar. Þægilegt, ekki satt? Og kostar ekki einu sinni svo mikið. Á sama tíma er fólk hvatt til frekari flokkunar á rusli og úrgangi, en flokkun er hvorki einföld né þægileg. Þér stendur til boða að flokka heima fyrir, fara með efnið á næstu grenndarstöð þar sem allra veðra er von og stinga því í gáma með misstórum og hentugum lúgum. Það er líka hægt að panta auka endurvinnslutunnu, sem oft kostar aukalega. Hvatinn er lítill, í raun þveröfugur. Kerfið er ákveðin kerfisvilla.

Ef þú vilt huga að umhverfi þínu, stuðla að bættri nýtingu auðlinda og í leiðinni lágmarka förgunarkostnað á þínum úrgangi fyrir þig og þitt sveitarfélag þá átt þú að finna lausn á því sjálfur. Út á grenndarstöð með þig eða réttu fram veskið og borgaðu fyrir auka þjónustu.

Af hverju snúum við þessu þá ekki við? Förum með almennt óflokkað sorp á grenndarstöðvar en flokkað efni sem þá er hægt að nota í endurvinnslu (lífrænt þar með talið) yrði sótt heim. Það væri áfram hægt að hafa það í boði að sækja óflokkað sorp heim en ef þú flokkar ekki þá borgar þú meira. Töluvert meira. Að sjálfsögðu hefði slíkt kerfi undantekningar t.d. fyrir þá sem af ýmsum orsökum geta ekki lagt leið sína á grenndarstöðvar með almennt sorp.

Allir græða

Á tímum þar sem verulegra aðgerða er þörf til að minnka neyslu, minnka myndun úrgangs og huga að betri nýtingu verðmæta og auðlinda þá hendum við meira rusli en nokkru sinni fyrr. Við getum gert miklu betur. Látum kerfið aðstoða okkur við að minnka úrgang og sóun. Þá græða allir.