Upp á síðkastið hafa stjórnmálamenn, stjórnmálafræðingar og þekktir álitsgjafar verið inntir eftir því í fjölmiðlum hvaða málefni næstu kosningar muni snúast um – og kemur valið á viðmælendum ekki meira á óvart en lóusöngur eða sauðburður. En í ljósi þess að kosningar snúast um kjósendur er hlutur þeirra í opinberri stjórnmálaumræðu í aðdraganda kosninga afskaplega rýr og því má spyrja: Er það verjandi, þegar stjórnarfar er byggt á fulltrúalýðræði, að sitjandi alþingismenn, almannatenglar sem starfa fyrir þá og fámennur hópur fjölmiðlafólks og sérfræðinga ráði mestu um hvaða mál séu aðallega rædd þegar kosningar eru í nánd? Ég tel að þetta sé ámælisvert og lýðræðinu alls ekki til framdráttar og þess vegna þurfi að fara fram vönduð könnun, sem óháð rannsóknarstofnun tækist á hendur, sem gæfi til kynna hvaða mál kjósendur teldu helstu hagsmunamál sín, mál sem stjórnmálaflokkar kæmust tæplega hjá að taka afstöðu til í kosningabaráttunni, útskýra hvað þeir vilji gera, hvenær og hvernig. Áhugavert væri að vita hvaða hagsmunasamtök, flokkar eða faghópar styddu slíka könnun og hverjir vildu fremur leiða okkur fyrir sjónir að þetta væri ósvinna sem samrýmdist ekki ríkjandi reglum og hugmyndum um lýðræði.

Fjölmiðlun í þágu lýðræðis

Þess eru dæmi í löndum sem eru mun fjölmennari en Ísland, og fjárráð fjölmiðla meiri, að vinna fréttamanna snúist ekki aðeins um fréttirnar (kannski að hálfu leyti) heldur hafi þeir verið ráðnir til starfa vegna sérfræðiþekkingar sinnar á ákveðnu sviði. Þeir halda þekkingu sinni við,
veita starfsfélögum upplýsingar þegar eftir því er leitað og vinna svo fréttaefni þar sem kunnátta þeirra kemur að góðum notum. Spurningar slíkra fagfréttamanna eru oft beinskeyttar og viðmælendur, til dæmis pólitíkusar, geta ekki sagt við þá hvað sem er. Íslenskir fréttamenn eru starfi sínu vaxnir en búa yfirleitt ekki við slíkar starfsaðstæður. Þess vegna þurfa þeir að huga að því hvenær þeir þurfi að hafa sérfræðinga við hlið sér, til dæmis í umræðuþáttum í kosningabaráttu. Enn fremur getur það aukið fjölbreytni í stjórnmálaumræðu fyrir kosningar að hún sé ekki eingöngu á vegum fréttastofa heldur haldi dagskrárgerðarfólk utan um hluta hennar.

Kjósendur finna hagsmunamál sín á eigin skinni. Þess vegna skiptir miklu máli að raddir þeirra heyrist og þeir geti beint spurningum til frambjóðenda eða gert athugasemdir við málflutning þeirra. Eitt sinn snerist kosningabarátta mun meira en nú um skoðanaskipti á fundum, þar sem saman komu kjósendur, frambjóðendur og fundarstjórar, og þar voru skoðanaskipti oft býsna lífleg. Nú eru fjölmiðlar orðnir einna mikilvægasti vettvangur kosningabaráttunnar en þar er formið orðið of uppstillt, klippt og skorið. Má til dæmis nefna sjónvarpsþætti þar sem frambjóðendum er stillt upp í röð fyrir framan fréttafólk, stundum ekki gert ráð fyrir samræðu, spurningar oftast fyrirsjáanlegar, svörin við þeim kunnugleg og tíminn sífellt á hlaupum frá þátttakendum. Ærið tilefni er þó til að hafa ljósvakaþætti það langa að þeir væru ekki á yfirborðinu frá upphafi til enda (kannski á sérstakri rás) og auðvelt væri að koma innleggi kjósenda á framfæri með ýmsum hætti. Útsendingar frá fundum með frambjóðendum og kjósendum víða um land yrðu einnig vatn á myllu lýðræðisins.

Hver er þín skoðun?

Oft hafa stjórnmálaskoðanir okkar seitlað inn í okkur án þess að við tækjum eftir því eða pældum mikið í þeim. Þess vegna skulum við taka því með fyrirvara sem fjölskylda, vinir, pólitíkusar, álitsgjafar og almannatenglar, fræðimenn og fjölmiðlungar segja um stjórnmálin. Við getum tekið okkar eigin pól í hæðina. Þá gildir að hafa ekki asklok fyrir himin; því fleiri sem sjónarhólarnir eru, þeim mun betur sést hvaða leiðir eru færar.