Skoðun

Kennarar hafa áhrif til framtíðar

Rök hafa verið færð fyrir því að góðir skólar og vel menntaðir þjóðfélagsþegnar séu helsti fjársjóður hverrar þjóðar. Hins vegar er skilgreining á menntun í margbreytilegum tækniheimi nútímans með ólíkum hætti en hjá fyrri kynslóðum. Í nýútkominni skýrslu OECD (2018) um kennarastarfið kemur fram að skólar í dag þurfi að takast á við önnur og flóknari verkefni en áður. Búa þarf nemendur undir örar samfélagsbreytingar, veita þarf þjálfun fyrir störf sem enn eru ekki til, byggja upp færni til að takast á við vandamál sem enn hafa ekki komið upp og tryggja að þeir séu í stakk búnir til þess að mæta tækni framtíðarinnar.

Enn fremur þurfa skólar að undirbúa nemendur fyrir líf og störf í síbreytilegri veröld, kenna þeim að meta að verðleikum ólík viðhorf og lífsskoðanir. Félagsleg og tilfinningaleg færni, samkennd, siðferði og skilningur á sjónarmiðum annarra öðlast aukið vægi í fjölbreyttum heimi. Í skýrslu OECD kemur einnig fram að árangur menntunar geti ekki lengur snúist aðallega um að miðla og endurtaka núverandi þekkingu heldur frekar að nýta það sem við þekkjum á skapandi hátt og í samstarfi við aðra. 

Kennarar og menntun þeirra er sá þáttur sem mest áhrif hefur á gæði skólastarfs. Því hefur verið haldið fram að forskot Finna og finnska skólakerfisins felist fyrst og fremst í færum kennurum. Kennarar njóta virðingar og eru mikils metnir í finnsku samfélagi. Afar mikill áhugi er á kennaranámi og mikil samkeppni er um að komast í námið. Kennarastarfið er eftirsótt og er fagmennska kennara viðurkennd. Þeir hafa töluvert faglegt sjálfstæði og sjálfræði í starfi sínu. Finnsk kennaramenntun er rannsóknamiðuð og grundvallast á fræðilegri þekkingu, starfsþjálfun og rannsóknum á kennslu. Endurbætur á kennaranámi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands á undanförnum árum byggja á þessum hugmyndum. Háskólinn leggur metnað sinn í að mennta afburða kennara sem eru færir um að takast á við þær miklu áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í samfélaginu á næstu árum og áratugum.

Átakinu „Hafðu áhrif“, sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands stendur fyrir, er ætlað að vekja athygli þjóðarinnar á kennarastarfinu; hversu áhugavert og skemmtilegt það er og hversu mikil áhrif kennarar hafa á einstaklinga og samfélag. Með þessu átaki viljum við kalla fram það jákvæða við kennarastarfið og gefa almenningi kost á að vekja athygli á eftirminnilegum kennurum. Á vefsíðu átaksins gefst fólki frábært tækifæri á að tilnefna góða kennara og færa rök fyrir tilnefningunni. Í framhaldinu mun Háskóli Íslands veita nokkrum framúrskarandi kennurum viðurkenningu í Hátíðasal Háskóla Íslands þann 6. júní nk.

Ég hvet landsmenn til að taka þátt í þessu átaki með okkur, kalla fram eiginleika sem prýða góða kennara og heiðra þá sem hafa haft jákvæð áhrif á líf þeirra

Jóhanna Einarsdóttir
forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Skoðun

Meira en nóg
Kolbrún Bergþórsdóttir

Skoðun

Ljótur leikur
Oddný Harðardóttir

Skoðun

Túristabrestur
Guðmundur Steingrímsson

Auglýsing

Nýjast

Týnda stúlkan
Lára G. Sigurðardóttir

Böl Íslendinga
Sif Sigmarsdóttir

Neyðarlending
Kristín Þorsteinsdóttir

Nor­ræn sam­vinna, horn­steinn í al­þjóð­legu sam­starfi
Steingrímur J. Sigfússon

Tvísýn staða
Hörður Ægisson

Norðurlöndin
Sigurður Ingi Jóhannsson

Auglýsing