Í Fréttablaðinu sl. föstudag var sagt frá því að bið eftir leikskólaplássi væri meiri en hjá nágrannasveitarfélögunum. Reykjavík standi verst. Dæmi eru um að börn yfir tveggja ára aldri fái ekki inni á leikskóla. Viðbrögð borgarstjórans við þessum fréttum er að þetta hafi komið honum á óvart. Þessi viðbrögð borgarstjórans eru ekki þau sem foreldrar búast við í Reykjavík árið 2020. Í nútímasamfélagi er gerð krafa til þess að borgin bjóði öllum börnum upp á að komast í leikskóla. Fyrsta skólastigið er mikilvægt. Um það erum við öll sammála. Sú krafa að allir eigi rétt á að komast í skóla á við um leikskólann, ekkert síður en grunnskólann.

Eitt af stóru kosningaloforðum borgarstjóra fyrir síðustu kosningar var að öll 12 mánaða börn fengju leikskólapláss. Nú eru liðin meira en tvö ár frá kosningum. Það eru nokkuð margir vinnudagar. Á þessum tveimur árum hefur ástandið á vinnumarkaðnum gjörbreyst og ætti mönnun því að vera auðveldari en ætlað var. Mönnun sem var vissulega erfið þegar uppsveiflan var sem mest ætti því að vera mun auðveldari nú. Áætlanir sem gerðar voru af borgarstjóra 2018 ættu því að standast.

Þörfin fyrir leikskólarými lá fyrir og liðin eru meira en tvö ár til undirbúnings. Hann hefur þó lofað því að útrýma biðlistunum í leikskólunum í Reykjavík frá síðustu aldamótum eða frá árinu 2002. Meirihluta þess tíma hefur hann sjálfur verið við stjórn borgarinnar. Verkefnið ætti því ekki að koma honum á óvart. Á meðan börn í Reykjavík sem eru tveggja ára gömul fá ekki leikskólapláss eru loforð Samfylkingarinnar um að 12 mánaða börn komist inn ekki pappírsins virði. Reykvíkingar borga hærra útsvar af launum sínum en þeir sem búa í nágrannasveitarfélögunum. Það er grundvallarkrafa að hér sé þjónustan í lagi. Og að hún standi öllum börnum til boða. Sú krafa ætti ekki að koma neinum á óvart.

Höfundur er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík