Hvenær verðum við aftur frjáls og njótum fullra mannréttinda, hvenær getum við aftur skemmt okkur, hvenær getum við aftur ferðast án sovéskra afskipta á landamærunum – og hvenær má gagnrýnin rödd á stjórnvaldsákvarðanir í faraldrinum heyrast á RÚV?

Þetta eru spurningar sem skipta máli fyrir líf okkar og hamingju og sem ríkisstjórnin getur ekki lengur neitað að svara.

Framtíðarsýn stjórnvalda

Stjórnvöld virðast ennþá bíða eftir lausnum lyfjarisanna. Ef sú leið verður farin áfram felur hún í sér að bíða til næstu áramóta eftir bóluefnum við þeim afbrigðum sem nú eru þekkt, en þá verða komin ný afbrigði og bíða þarf til vors eftir bóluefnum gegn þeim o.s.frv. Þannig verðum við ekki aftur frjáls meðan Covid-19 veiran fer um heiminn, sem sagt, um ófyrirsjáanlega framtíð.

Afnám frelsishafta

Hins vegar hafa bólusetningar þegar skilað þeim árangri að faraldurinn veldur litlum veikindum. Og í mánuðinum munu bæði Danir og Finnar losna við allar takmarkanir á grundvelli víðtækra bólusetninga. Þeir munu þá væntanlega láta faraldurinn ganga yfir í einhverri mynd og mæta því með öflugri heilbrigðisþjónustu.

Af hverju förum við Íslendingar ekki sömu leið? Er það af því að Landspítalinn hafnar að hjúkra þeim sem eru veikir af Covid-19? Heilbrigðisráðherra verður að bregðast við því með uppsetningu afkastamikillar sóttvarnadeildar utan spítalans. Ekki er hægt að réttlæta frelsishindranir og tekjutap í samfélaginu með því að læknar við Landspítalann neiti að þjóna í faraldrinum, heldur tvöfaldar það verkefni ráðherrans, því honum ber einnig að leysa stjórnunarvanda spítalans. Eftir hverju bíður hann?

Ólögmætar frelsishindranir

Ósennilegt er að núgildandi frelsis- og mannréttindatakmarkanir og ferðatakmarkanir á landamærum standist stjórnarskrá og alþjóðasamninga. Svigrúm stjórnvalda til frelsistakmarkana ræðst af því hvað hættan gagnvart lífi og heilsu er mikil, samanber greinargerð Páls Hreinssonar í september 2020. Því þarf að endurskoða aðgerðir gegn faraldrinum þegar áhætta breytist, til dæmis átti að gera það í vetur eftir að viðkvæmir og aldraðir höfðu verið bólusettir og aftur í sumar þegar flestir fullorðnir voru bólusettir. Forsendur fyrir úrræðum stjórnvalda eru gerbreyttar og ekki hægt að láta eins og verkfærakistan innihaldi hvað sem er.

Opinberar ákvarðanir

Mörg sjónarmið þurfa að koma að opinberri ákvarðanatöku. Af því að stjórn þjóðfélags er ekki farsóttarfræðilegt verkefni, farsóttafræðinga þarf ekki að kalla til nema í upplýsingaskyni (frekar en eldfjallafræðinga eða jarðskjálftafræðinga); þessir hópar hafa ekki menntun né þekkingu til að taka stjórnvaldsákvarðanir. Slíkar ákvarðanir eru alltaf hápólitískar og snúast um efnahagsleg, félagsleg, menningarleg, lögfræðileg og stjórnsýsluleg markmið og hvernig þjóðfélagi við viljum búa í, hvaða stríð við heyjum til að ná markmiðum okkar og hvaða velferðarstig við viljum.

Ríkisstjórnin valdi að beita lífterror, sem fræðimenn kalla svo, til að fá almenning til að samþykkja og jafnvel kalla eftir beinum frelsishindrunum með lögregluinngripi og viðurlögum – í þeirri von að lyfjaiðnaðurinn leysti málið hratt og vel og beitti fjölmiðlum fyrir sig.

Þar sem um framkvæmdarvaldsverkefni er að ræða hefði átt að beita hófstilltum aðferðum og fara fleiri leiðir en eina til að mæta óvissunni með eggin í fleiri en einni körfu. Svíþjóð, ríki hinna flóknu lýðræðisreglna, hefur beitt valdinu af meðalhófi og farið fleiri en eina leið, til dæmis að takmarkaða yfirferð faraldursins, setja upp afkastamiklar sóttvarnadeildir, bíða eftir bóluefnum og svo framvegis. Svíar hafa hvorki takmarkað ferðafrelsi né málfrelsi.

Enn er hálflokað

The Economist kallaði í ágúst eftir opnun landamæra. Enn er Ísland samt hálflokað, enn eru skemmtanir að nokkru bannaðar og enn er skólastarfi og atvinnulífi ógnað með sóttkvíum, þar sem rakningum og eftirliti með einkalífi er beitt. Enn liggur sú hótun í loftinu að aukið frelsi innanlands byggist á lokun Leifsstöðvar. Allt þetta þarf að hverfa og ekki síst öll afskipti lögreglu af lífi almennings.

Valkostirnir hafa verið skrifaðir í skýin um nokkra hríð: Við getum lifað eðlilegu lífi í hættulegum heimi baktería og veira, sjúkdóma og dauða, eða búið við skert mannréttindi og minni efni en áður með landamærin lokuð eða hálflokuð, kannski til langrar framtíðar. Viljum við lifa sem frjáls þjóð í hættulegum heimi?