Niðurstöður alþingiskosninganna voru á þann veg að þjóðin kinkaði samþykkjandi kolli til áframhaldandi samstarfs ríkisstjórnar Vinstri grænna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Það væri beinlínis fáránlegt ef þessir flokkar héldu ekki áfram samstarfi sem hefur í aðalatriðum verið farsælt. Mikilvæg verkefni bíða og má þar nefna að viðhalda þarf hinum margumrædda efnahagslega stöðugleika, en um það var einmitt kosið.

Ljóst er að aðgerðir vegna loftslagsmála verða einnig eitt brýnasta verkefni næstu ríkisstjórnar. Enginn efast um vilja Vinstri grænna í þeim efnum og innan Framsóknarflokksins hljóta menn einnig að átta sig á mikilvægi þessa. Hvað Sjálfstæðisflokkinn varðar gefst honum nú gott tækifæri til að hrista af sér ásakanir um að þar á bæ sé enginn áhugi á að taka á loftslagsvandanum.

Það er einföld staðreynd að þeir stjórnmálaflokkar sem viðurkenna ekki nauðsyn aðgerða í þessum málaflokki munu í nánustu framtíð hrekja frá sér unga og hugsjónamikla kjósendur og hljóta harðan dóm sögunnar. Það er nóg af vitsmunum í Sjálfstæðisflokknum, þessum stærsta stjórnmálaflokki landsins.

Því verður ekki trúað að þar ætli menn sér að standa áhugalausir og geispandi gagnvart þeim hörmungum sem blasa við heimsbyggðinni vegna loftslagsbreytinga.

Rétt eins og augljóst er að þjóðin veitti ríkisstjórninni brautargengi í nýliðnum kosningum þá er jafn augljóst að þjóðin vill að Katrín Jakobsdóttir verði áfram forsætisráðherra. Þetta hafa skoðanakannanir sýnt mjög ákveðið. Ekkert sérstakt bendir til að Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson horfi á forsætisráðherrastólinn með græðgisglampa í augum.

Enda væru þeir bjánar ef þeir áttuðu sig ekki á styrk og vinsældum Katrínar. Formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar búa örugglega yfir pólitískum metnaði til að verða forsætisráðherra, en það væri glapræði af þeim að stefna að því núna. Sjálfir virðast þeir gera sér grein fyrir því, sem sýnir að þeir eru jarðbundnir, skynsamir og með gott stöðumat.

Vonandi verða þeir áfram þannig þenkjandi.

Katrín Jakobsdóttir hefur verið einstaklega farsæll forsætisráðherra og nýtur virðingar þvert á flokkslínur. Hún er réttsýn, sanngjörn og skarpgreind. Svo hefur hún góða kímnigáfu, sem er mikilvægur eiginleiki sem of fáir stjórnmálamenn hafa. Flokkur Katrínar á að vera stoltur af henni og standa með henni – alveg eins og þjóðin gerir.